Erlent

Árásarmaðurinn hét Karim Cheurfi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi árásarinnar við Champs Elysees verslunargötuna.
Frá vettvangi árásarinnar við Champs Elysees verslunargötuna. Vísir/AFP
Maðurinn sem myrti lögregluþjón og særði tvo aðra í París í gærkvöldi hét Karim Cheurfi. Hann hafði áður setið í fangelsi fyrir að skjóta að tveimur lögregluþjónum árið 2001 og hafði verið dæmdur fyrir glæpi fjórum sinnum. Þá var hann handtekinn í febrúar fyrir að hóta lífi lögregluþjóna, en var sleppt þar sem sönnunargögn gegn honum þóttu ekki nægjanleg.

Hann var skotinn af lögregluþjónum og skammt frá líki hans fannst miði þar sem farið var hlýjum orðum um Íslamska ríkið, sem hefur lýst yfir ábyrgð á árásinni. Íslamska ríkið virðist þó hafa nefnt rangan mann á nafn, sem hefur vakið furðu yfirvalda.

Francois Molins, aðalsaksóknari Parísar, segir Cheurfi hafa skotið lögregluþjóninn sem dó tvisvar sinnum í höfuðið með Kalashnikov árásarriffli.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni bjó Cheurfi, sem var 39 ára gamall, hjá móður sinni í París. Þrír fjölskyldumeðlimir hans hafa verið færðir í gæsluvarðhald en lögreglan leitar nú að mögulegum samstarfsaðilum Cheurfi.

Cheurfi sat í fangelsi í tíu ár eftir að hann skaut á lögregluþjóna árið 2001. Þeir höfðu reynt að koma í veg fyrir að hann stæli bíl. Meðan hann var í fangelsi særði hann fangavörð með því að hrifsa af honum byssu og skjóta hann.

Honum var sleppt á skilorði árið 2015.

Hann var svo handtekinn í febrúar fyrir að hafa hótað því að myrða lögregluþjóna. Honum var hins vegar sleppt vegna skorts á sönnunargögnum.


Tengdar fréttir

Hafði áður reynt að myrða þrjá lögreglumenn

Maðurinn sem grunaður er um að hafa skotið lögreglumann til bana og sært tvo til viðbótar á Champs Élysées í París í gærkvöldi var til rannsóknar hjá frönskum lögreglunni þar sem hann hafði sýnt að hann ætlaði sér að myrða lögreglumenn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×