Fótbolti

Markaði nýtt upphaf þegar RÚV klippti á útsendinguna frá vítaspyrnukeppninni 2006

Anton Ingi Leifsson skrifar
Margrét Lára faðmar systur sína, Elísu, eftir að Valur varð Íslandsmeistari í haust.
Margrét Lára faðmar systur sína, Elísu, eftir að Valur varð Íslandsmeistari í haust. vísir/daníel

Markadrottningin og fyrrum landsliðsfyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir segir að það hafi markað ákveðið upphaf í vitneskju um áhuga á kvennaknattspyrnu er útsendingin frá bikarúrslitunum 2006 var rofin.

Valur og Breiðablik mættust í mögnuðum leik á Laugardalsvelli. Eftir 3-3 jafntefli, þar sem Margrét Lára skoraði öll mörk Vals, var farið í vítaspyrnukeppni en klippt var á útsendinguna og ekki sýnt frá vítaspyrnukeppninni.

Margrét Lára var gestur í Sportinu í kvöld sem var sýnt í gærkvöldi þar sem hún gerði upp ferilinn en hún sagði að þetta hafi verið einn sinn besti leikur á ferlinum.

Amma sendi RÚV vel valin skilaboð

„Það var margt sem mótiveraði mig á þessum degi. Við vorum að koma undan erfiðu tímabili með Val árið 2005 sem var mitt fyrsta tímabil. Ég kem í lið sem var Íslandsmeistari og við unnum ekki neitt árið 2005. Það var smá bömmer fyrir mig og erfitt tímabil fyrir mig og liðið. Maður var í hefndarhug árið eftir og við ætluðum okkur allt þetta tímabil,“ sagði Margrét Lára.

„Þessi leikur var ótrúlegur og endaði á mjög sérstakan hátt. Ég veit ekki hvort fólk man eftir því en þegar vítaspyrnukeppnin byrjaði þá var „cuttað“ á útsendinguna. Það markaði upphafið að því að margir hafi áttað sig á því að fólk hafi nennt að horfa á kvennafótbolta. Fram að því var verið að sýna einn og einn leik. Bikarúrslitaleikurinn var sýndur og einn og einn landsleikur en ég veit að það var allt vitlaust á RÚV.“

„Ég held að amma mín heitin hafi verið þar fremst í flokki og hún sendi einhver vel valin skilaboð niður á RÚV og fleiri. Þetta var náttúrlega hálf skammarlegt að „cutta“ á útsendingu í svona spennandi leik og komið í vítaspyrnukeppni. Eftir það fannst mér meira tekið eftir kvennaknattspyrnu og þetta var ótrúlega góð auglýsing fyrir kvennaknattspyrnu,“ sagði Margrét Lára.

Klippa: Sportið í kvöld - Margrét Lára um bikarúrslitin 2006

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.