Innlent

Bein útsending: Þáttur íþrótta í einstökum árangri forvarna á Íslandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dæmi um umfjöllun í erlendum miðlum um forvarnir á Íslandi.
Dæmi um umfjöllun í erlendum miðlum um forvarnir á Íslandi. Mosaicscience.com

Þáttur skipulagðrar íþróttaþátttöku í hinu íslenska forvarnarmódeli hefur vakið heimsathygli. Í öðrum fyrirlestrinum í fyrirlestraröð Háskólans í Reykjavík og Vísis mun Margrét Lilja Guðmundsdóttir, kennari við íþróttafræðideild HR og sérfræðingur hjá Rannsóknum & greiningu, beina sjónum að því hvað íslenskt íþróttastarf hefur umfram það sem tíðkast víðast hvar erlendis.

Fyrirlesturinn hefst klukkan 12 og verður í beinu streymi hér að neðan.

Í íslenskum rannsóknum á íþróttaiðkun kemur fram að börn og ungmenni sem stunda íþróttir með íþróttafélagi eru ólíklegri til að neyta vímuefna samanborið við þau sem ekki stunda íþróttir. Börn og ungmenni sem stunda íþróttir með íþróttafélagi eru einnig líklegri til að standa sig betur í námi, þau meta líkamlega og andlega heilsu sína betur eftir því sem þau æfa meira og telja sig í betri líkamlegri þjálfun en þau sem æfa lítið eða ekkert. Auk þess er yfirgæfandi meirihluti barna og ungmenna á Íslandi ánægð á æfingum, ánægð með þjálfara sinn sem og íþróttafélagið.

Þessi mikla ánægja unglinga með starf íþróttafélaga er staðfesting á því góða starfi sem þar er unnið um allt land. Íslenskt íþróttastarf fer fram í umhverfi sem á sér sögu, hefðir og viðmið og er með mikilli aðkomu foreldra. Það sem helst skiptir máli í skipulögðu starfi er að það sé reglumiðað og undir handleiðslu faglærðs þjálfara. Hlutverk þjálfara og ábyrgð hans í uppeldi iðkenda er ótvírætt og skiptir því sköpum hvaða áherslur hann leggur í starfi sínu á hluti eins og sigur í keppni, drengilega framkomu og heilbrigt líferni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×