Fótbolti

Eiður Smári gaf sína frægustu stoðsendingu á þessum degi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chelsea sló hið ósigraða lið Arsenal úr leik í Meistaradeild Evrópu vorið 2004.
Chelsea sló hið ósigraða lið Arsenal úr leik í Meistaradeild Evrópu vorið 2004. vísir/epa

Á þessum degi, 6. apríl, fyrir 16 árum gaf Eiður Smári Guðjohnsen sennilega sína frægustu stoðsendingu á ferlinum.

Þegar þrjár mínútur voru eftir af seinni leik Chelsea og Arsenal á Highbury í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu fékk Eiður boltann frá vinstri bakverðinum Wayne Bridge. 

Hann var fljótur að hugsa og setti boltann í fyrstu sendingu milli fóta Kolos Toure og í hlaupaleið Bridge. Hann kláraði færið af yfirvegun, setti boltann í fjærhornið og tryggði Chelsea 2-1 sigur og sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Eiður kom mikið við sögu í einvíginu gegn Arsenal sem fór taplaust í gegnum tímabilið í ensku úrvalsdeildinni.

Íslenski landsliðsfyrirliðinn kom Chelsea yfir á 53. mínútu í fyrri leiknum gegn Arsenal á Stamford Bridge. Sex mínútum síðar jafnaði Robert Pires í 1-1 sem urðu lokatölur. Skytturnar voru því með útivallarmark í farteskinu fyrir seinni leikinn.

Staða Arsenal vænkaðist enn frekar þegar José Antonio Reyes heitinn kom liðinu yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks í seinni leiknum.

Snemma í seinni hálfleik átti Claude Makélélé skot af löngu færi sem Jens Lehmann varði. Þjóðverjinn hélt ekki boltanum sem féll fyrir Frank Lampard sem jafnaði í 1-1 og í 2-2 samanlagt.

Allt stefndi í framlengingu en Eiður og Bridge voru á öðru máli og bjuggu til sigurmark Chelsea eins og áður sagði. 

Eiður var í byrjunarliði Chelsea í báðum leikjunum gegn Arsenal. Í fyrri leiknum var hann í framlínunni með Adrian Mutu en í þeim seinni með góðvini sínum, Jimmy Floyd Hasselbaink. Allt það helsta úr seinni leik Chelsea og Arsenal má sjá hér fyrir neðan.

Í undanúrslitunum tapaði Chelsea fyrir Monaco, samanlagt 5-3. Eiður lagði upp mark í báðum leikjunum. Hann gaf alls fimm stoðsendingar í Meistaradeildinni tímabilið 2003-04. Eiður lék 41 leik í öllum keppnum þetta tímabil og skoraði 13 mörk.

Sjötti apríl er merkilegur í Meistaradeildarsögu Chelsea því á þessum degi 2005 vann liðið 4-2 sigur á Bayern München á Stamford Bridge. Eiður lagði upp fjórða mark Chelsea fyrir Didier Drogba. Chelsea vann einvígið, 6-5 samanlagt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.