Innlent

„Þessu fólki líður örugglega ekki vel í dag“

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögreguþjónn, biður fólk um að virða reglur og ferðast innanhúss. 
Víðir Reynisson, yfirlögreguþjónn, biður fólk um að virða reglur og ferðast innanhúss.  Lögreglan

Allt viðbragðsteymi lögreglu og sjúkraflutningamanna á Selfossi þurfti að fara í sóttkví í nótt eftir að hafa sinnt fólki sem átti að vera í sóttkví og hafði velt bíl sínum á Þingvallavegi. Fólkið slapp með minniháttar meiðsl. Yfirlögregluþjónn segir að slysið hafi valdið miklu álagi og ítrekar að fólk ferðist innanhúss.

Þrír voru í bílnum þegar hann valt á Þingvallarvegi en sluppu með minniháttar meiðsl. Þeir áttu allir að vera í sóttkví en samkvæmt reglum sóttvarnalæknis má einstaklingur í sóttkví ekki fara út af heimili nema brýna nauðsyn beri til. Þó má fara í bíltúr á einkabíl en ekki eiga samskipti við aðra í návígi. 

Víðir Reynisson Yfirlögregluþjónn segir að slysið hafi valdið miklu álagi í umdæmi lögreglunnar á Selfossi.

„Sjúkraflutningsmenn fóru á þremur bílum og lögreglumenn að auki. Á slysstað kom í ljós að allir í bílnum voru í sóttkví og einn með einkenni. Fólkið var ekki mikið slasað en öll vaktin þurfti að fara í sóttkví. Í dag kom svo í ljós að farþeginn sem var með einkenni var ekki smitaður og því komst fólkið úr sóttkví. Þetta var hins vegar mikið álag á starfsfólk sem bæði þurfti að koma vegna þeirra sem fóru í sóttkví og á þá sem þurftu að bíða heima eftir niðurstöðu. Þessu hefði verið hægt að forða,“ segir Víðir

Víðir telur að atvikið flokkist ekki sem brot á sóttkví.

„Þau voru saman í sóttkví og ákveða að fara saman í bíltúr. Það er ekki brot á sóttkví í sjálfu sér en þessu fólki líður örugglega ekki vel í dag,“ segir Víðir.

Hann ítrekar fyrirmæli um að fólk ferðist innanhúss næstu vikurnar.

Viðbragðskerfið okkar er viðkvæmt núna, það er mikið af heilbrigðisfólki, lögreglu og öðrum í sóttkví og við þurfum að verja kerfið. Það getum við auðveldlega gert með því að ferðast innanhúss,“ segir Víðir. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×