Innlent

Lands­réttur stað­festir dóm yfir tveimur föngum fyrir „sér­stak­lega hættu­lega“ líkams­á­rás

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Landsréttur staðfesti í dag dóm yfir tveimur föngum á Litla-Hrauni fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á ungum hælisleitenda.
Landsréttur staðfesti í dag dóm yfir tveimur föngum á Litla-Hrauni fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás á ungum hælisleitenda. Vísir/Ernir

Landsréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Suðurlands yfir tveimur föngum á Litla-Hrauni fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Þá var annar maðurinn einnig sakfelldur fyrir að hafa kastað stól í fangavörð og hrækt í andlit hans. Mennirnir voru báðir dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir brotið af Héraðsdómi Suðurlands í lok mars síðasta árs.

Þá var annar mannanna, Trausti Rafn Henriksson, dæmdur til að greiða fórnarlambinu, ungum hælisleitanda frá Marokkó, 600 þúsund króna miskabætur vegna árásarinnar.

Sá er ráðist var á var einnig fangi á Litla-Hrauni þegar árásin átti sér stað í janúar árið 2018. Hann kom hingað til lands haustið 2016 en hann sat inni fyrir ítrekaðar flóttatilraunir en hann freistaðist til þess að smygla sér um borð í eitt af flutningaskipum Eimskips og komst þannig til Kanada. Skömmu eftir árásina var honum vísað af landi brott.

Ákærðu, þeir Trausti Rafn Henriksson og Baldur Kolbeinsson, réðust á Houssin í íþróttasal fangelsisins þann 23. janúar 2018. Fram kemur í dómnum að Trausti hafi kýlt og sparkað ítrekað í höfuð og líkama fórnarlambsins auk þess að hafa tekið hann hálstaki. Baldur hafi þá einnig kýlt hann ítrekað í höfuð og líkama, sparkað í hann og snúið hann niður í gólfið.

Sjá einnig: Dæmdir í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir „fólskulega“ árás á ungan hælisleitanda

Þá reyndi Baldur einnig að girða niður um hann buxurnar og sest klofvega yfir búk hans og kýlt ítrekað með báðum höndum í höfuð hans þar til hann missti meðvitund. Trausti hafi á meðan þrívegis stappað á höfði mannsins. Hann hlaut mikla áverka af árásinni.

Trausta Rafni var einnig gefið að sök að hafa kastað stól í fangavörð á Litla-Hrauni í september árið 2016 og síðar hrækt í andlit hans. Þá var Baldur einnig ákærður fyrir að hafa bitið hluta úr efri vör fanga á íþróttavelli við Litla-Hraun í júlí árið 2017.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×