Innlent

Ósátt við að stúdentar fái ekki atvinnuleysisbætur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti SHÍ.
Jóna Þórey Pétursdóttir, forseti SHÍ. vÍSIR/VILHELM

Forsvarsmenn stúdentahreyfingarinnar segjast ósáttir við að atvinnuleysisbætur til námsmanna hafi ekki verið hluti af aðgerðum til handa stúdentum sem ráðherrar mennta- og félagsmála kynntu á blaðamannafundi í dag. Ráðherra segir að sú leið hafi vissulega verið skoðuð en ákveðið hefði verið að skapa frekar störf.

Aðalkrafa stúdenta vegna þeirrar óvissu sem nú blasir við vegna kórónuveirufaraldursins er að þeim verði gefinn kostur á að fá atvinnuleysisbætur. Jóna Þórey Pétursdóttir forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands segir að þessari kröfu hafi ekki verið svarað.

„Stúdentar eru nú þegar mjög virkir á vinnumarkaði. 70 prósent þeirra vinna samhliða námi og 90 prósent að sumri og greiða hluta af launum sínum tryggingagjald í atvinnutryggingasjóð. Og eiga ekki þann rétt enn þá. Þannig að það á eftir að leiðrétta það.“

Jóna sagði þó ánægjulegt að sjá að kröfur stúdenta um breytingar hjá LÍN hafi náð í gegn. Sömuleiðis sé greiðsludreifing skrásetningargjalda skref í rétta átt þótt krafa stúdenta sé að gjöldin falli niður á næsta skólaári.

Ásmundur Einar Daðason, félagsmálaráðherra.Vísir/vilhelm

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir að það hafi auðvitað verið skoðað að gera stúdentum kleift að fá atvinnuleysisbætur.

„En niðurstaðan var sú að það væri miklu skynsamlegra að leggja áherslu á að skapa störf vegna þess að það tryggir virkni og það skapar verðmætasköpun í samfélaginu og hefur afleidd jákvæð áhrif fyrir hagkerfið.“

Upptöku frá fundinum má sjá að neðan en í lok upptökunnar er rætt við fulltrúa stúdenta.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.