Innlent

Kostnaður Ísa­fjarðar­bæjar vegna snjó­flóðanna um 39 milljónir

Atli Ísleifsson skrifar
Frá Flateyrarhöfn eftir snjóflóðin í bænum þann 14. janúar síðastliðinn.
Frá Flateyrarhöfn eftir snjóflóðin í bænum þann 14. janúar síðastliðinn. vísir/egill

Heildarkostnaður Ísafjarðarbæjar vegna snjóflóðanna sem féllu á Flateyri þann 14. janúar síðastliðinn er tæpar 39 milljónir krónur. Er um að ræða útlagðan kostnað og þann kostnað sem áætlað er að muni falla til á næstu vikum og mánuðum.

Þetta kemur fram í bréfi fulltrúar sveitarfélagsins til forsætisráðuneytisins. Af þessum 39 milljónum krónum hafa þegar 13 milljónir þegar verið greiddar.

Í bréfinu kemur fram að hreinsunarstarf sé að hefjast þegar snjóa leysir, en stærstu kostnaðarliðirnir snúa að hreinsunarstarfi á hafnarsvæðinu og botni hafnar, förgun og endurbyggingu í bænum – á lóni og við varnargarð og fleira.

„Sveitarfélagið leggur áherslu á mikilvægi stuðnings ríkisins við úrlausn þessa stóra verkefnis. Afleiðingar snjóflóðanna voru miklar, fyrir samfélagið og innviði. Nauðsynlegt er að sveitarfélagið hafi fjárhagslegt bolmagn til að sinna uppbyggingu, viðgerðum og hreinsun á Flateyri, auk fyrsta viðbragðs dagana eftir flóðin. Stuðningur ríkisins er mikilvægur þáttur í þeirri vinnu,“ segir í bréfinu.

Fréttablaðið hefur eftir Birgi Gunnarsson bæjarstjóra að hann geri ráð fyrir að Ofanflóðasjóður muni greiða stóran hluta af þeim kostnaði sem hafi fallið á bæinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×