Innlent

Pétur ráðinn forstjóri Reykjalundar eftir ólgu vetrarins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Pétur Magnússon, nýr forstjóri Reykjalundar.
Pétur Magnússon, nýr forstjóri Reykjalundar. Aðsend

Pétur Magnússon hefur verið ráðinn forstjóri Reykjalundar, endurhæfingarmiðstöðvar SÍBS frá og með 1. júní. Þetta kemur fram í tilkynningu frá SÍBS. Mikil ólga var á Reykjalundi í vetur eftir að Birgi Gunnarssyni forstjóra Reykjalundar til tólf ára var óvænt sagt upp störfum í október í fyrra.

Pétur er lyfjafræðingur að mennt og með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík með áherslu á mannauðsstjórnun, að því er segir í tilkynningu.

„Pétur hefur farsæla reynslu af stjórnun og rekstri í heilbrigðisþjónustu, en hann hefur stýrt Hrafnistuheimilunum síðastliðin 12 ár. Á þeim árum hefur hann verið í fararbroddi í öldrunarþjónustu á landsvísu og leitt umfangsmikla uppbyggingu Hrafnistuheimilanna og átt frumkvæði að nýjungum og breytingum í þjónustu við aldraða. Hann hefur víðtæka reynslu af samskiptum við stjórnvöld og félagasamtök sem mun reynast mikilvægt fyrir framtíðarþróun endurhæfingarstarfsemi á Reykjalundi.“

Fjallað var mikið um málefni Reykjalundar í haust og vetur, sem einkenndust af ólgu og ósætti milli starfsfólks stofnunarinnar og stjórnar SÍBS. Málið komst fyrst í fjölmiðla eftir að Birgi Gunnarssyni, sem þá hafði verið forstjóri Reykjalundar í tólf ár, var óvænt sagt upp störfum af stjórn SÍBS. Þá var Magnúsi Ólasyni, framkvæmdastjóra lækninga á Reykjalundi, einnig sagt skyndilega upp.

Í kjölfarið var Herdís Gunnarsdóttir ráðin forstjóri Reykjalundar og Ólafur Þór Ævarsson ráðinn framkvæmdastjóri lækninga. Herdís og Ólafur sögðu þó bæði störfum sínum lausum eftir skamman tíma í starfi.

Sérstök þriggja manna starfsstjórn Reykjalundar var þá sett á fót fyrir tilstilli heilbrigðisráðherra í nóvember. Starfsstjórninni var veitt fullt sjálfstæði og óskorað umboð til athafna við stjórnun Reykjalundar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×