Fótbolti

Bestu liðin heima væru best í Belgíu

Landsliðsmarkvörðurinn Þóra B. Helgadóttir leikur í dag sinn fyrsta leik með belgíska úrvalsdeildarliðinu Oud-Heverlee Leuven þegar það heimsækir lið KFC Lentezon Beerse.

„Leuven er með ágætislið," sagði Þóra við Fréttablaðið en liðið er sem stendur í sjötta sæti deildarinnar. „Það hefur reyndar gengið frekar illa upp á síðkastið en liðið var í þriðja sæti fyrr á tímabilinu."

Aðeins fjögur stig er í liðið í þriðja sætið og því mikil barátta um það sæti. KFC Rapide Wezemaal er í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga eftir sautján leiki en Anderlecht er í öðru sæti, sex stigum á eftir.

Beerse, andstæðingar Leuven í dag, eru í ellefta sæti deildarinnar. Alls eru fjórtán lið í deildinni og hófst keppnin í september og lýkur um miðjan maímánuð.

Hún segir getumuninn á belgísku úrvalsdeildinni og þeirri íslensku ekki vera það mikinn. „Ég held að bestu liðin heima væru best hér í Belgíu. Á móti kemur þó að breiddin er meiri hér."

Hún segir að sér hafi verið afar vel tekið af leikmönnum liðsins. „Það kom mér reyndar á óvart að ég fékk strax að spila. Ég hef aðeins verið hér í tvær vikur og leikið einn leik með varaliðinu."

Þóra er í vinnu í Brussel þar sem hún býr, en Leuven er í aðeins 20 kílómetra fjarlægð. Hún segir að það sé óvíst hvenær hún komi heim á nýjan leik.

„Það er alveg óráðið. Ég mun ekki spila heima í sumar en held auðvitað áfram með landsliðinu," sagði hún en hún fer með liðinu í æfingabúðir í Algarve nú á mánudaginn.

„Þetta hefur verið skemmtileg reynsla. Ég er alltaf að koma mér betur fyrir og hlakka til að spila í dag."

Þóra er samningsbundin Breiðabliki en var lánuð til belgíska liðsins nú í haust þegar ljóst var að hún myndi flytja þangað vegna vinnu sinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×