Fótbolti

Sara getur enn kvatt Wolfsburg með tveimur titlum eftir nýjustu fréttir

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sara Björk í leik með Wolfsburg
Sara Björk í leik með Wolfsburg Vísir/getty

Efstu tvær deildirnar í þýska fótboltanum karlamegin fara af stað um helgina en óvíst var hvað yrði um efstu deild kvenna þangað til í gær.

Nú hefur þýska knattspyrnusambandið gefið út að stelpurnar munu væntanlega byrja að spila aftur þann 29. maí og reiknað með að úrvalsdeildinni ljúki tæpum mánuði seinna eða 28. júní.

Sex umferðir eru eftir af kvennadeildinni sem og leikir í þýska bikarnum en þar er komið fram í átta liða úrslit. Stefnan er að spila 8-liða úrslitin 3. júní, undanúrslitin 10. júní og úrslitaleikinn í Köln 4. júlí.

Wolfsburg, lið Söru Björk Gunnarsdóttur, er sem fyrr á toppi deildarinnar en liðið er með átta stiga forskot. Bayer Leverkusen, sem Sandra María Jessen leikur með, er í 9. sætinu.

Bæði lið eru komin áfram í átta liða úrslit bikarsins en Sara Björk er á förum frá Wolfsburg eftir leiktíðina. Hún getur því enn kvatt með að vinna bæði þýska bikarinn og deildina en Wolfsburg er ríkjandi meistari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×