Fótbolti

Joe Cole: Ég vona að Fabio Capello horfi á frönsku deildina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joe Cole í leik með Lille.
Joe Cole í leik með Lille. Mynd/AP
Joe Cole hefur byrjað vel með franska liðinu Lille sem fékk hann á láni frá Liverpool fyrir þetta tímabil. Cole skoraði í síðasta leik liðsins og hefur að auki lagt upp tvö mörk fyrir félaga sína í fyrstu fjórum leikjum sínum.

Cole er þegar farinn að biðla til landsliðsþjálfarans Fabio Capello um sæti í enska landsliðinu en Cole hefur ekki spilað með landsliðinu síðan á HM í Suður-Afríku sumarið 2010.

„Ég vona að Fabio Capello horfi á frönsku deildina. Ég yrði ánægðasti maður á svæðinu ef að ég fengi aftur tækifæri með enska landsliðinu. Ég þarf samt að byrja á því að spila reglulega og hjálpa Lille að vinna titla," sagði Joe Cole í viðtali við franska blaðið l'Equipe.

Lille heimsækir tyrkneska félagið Trabzonspor í Meistaradeildinni í kvöld en franska liðið gerði 2-2 jafntefli við CSKA Moskvu í fyrsta leik sínum á sama tíma og Trabzonspor vann 1-0 útisigur á Internazionale.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×