Fótbolti

Mun UEFA drepa Englandsdrauminn í dag?

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney í baráttunni á EM 2016 en þeir urðu svo samherjar hjá Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson og Wayne Rooney í baráttunni á EM 2016 en þeir urðu svo samherjar hjá Everton. vísir/getty

UEFA mun í dag funda með sínum 55 aðildarlöndum að sambandinu en þar mun evrópska knattspyrnusambandið fara yfir hvernig knattspyrnuárið mun líta út. Það hefur tekið miklum breytingum vegna kórónuveirunnar.

Einn af þeim hlutum sem verða ræddir á fundinum í dag er meðal annars Þjóðadeildin. Þar átti Ísland að vera í riðli með Danmörku, Englandi og Belgíu. Riðill sem margir stuðningsmenn og væntanlega leikmenn voru spenntir fyrir en sá draumur gæti verið úti.

Forráðamenn UEFA hafa viðrað þá hugmynd að setja þyrfti Þjóðadeildina á ís þetta árið til þess að koma öllum Evrópuleikjum; til að mynda Meistaradeildinni og undankeppni fyrir EM 2021 á dagskrána.

Það er ekki bara Þjóðadeildin sem verður til umræðu í dag því þar verður einnig rætt um Meistaradeildina sem að öllum líkindum klárast í ágúst miðað við nýjustu tíðindi. UEFA hefur óskað eftir því að fá plön frá öllum deildum hvað þau ætli að gera með deildirnar heima fyrir, í síðasta lagi 25. maí, svo sambandið geti ákveðið hvað verður um Evrópukeppnirnar.

Það verður því fróðlegt að sjá hvað kemur út úr fundinum í dag en reikna má með að Guðni Bergsson formaður KSÍ og Klara Bjartmarz framkvæmdarstjóri KSÍ muni sitja fundinn sem fer að sjálfsögðu fram í gegnum veraldarvefinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×