Enski boltinn

Friedel segir ummæli Howard út í hött

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Tim Howard, markvörður Everton og bandaríska landsliðsins, segir að Brad Friedel hafi reynt að koma í veg fyrir félagaskipti sín til Manchester United árið 2003.

Þetta kemur fram í nýrri ævisögu hans en Friedel, sem er 43 ára og enn á mála hjá Tottenham, segir þetta rangt.

„Þetta er algjört kjaftæði,“ sagði Friedel í samtali við ESPN í Bandaríkjunum. „Ég hef aldrei staðið í vegi fyrir Tim Howard og reynt að koma í veg fyrir að hann fengi atvinnuleyfi.“

Howard var keyptur til United frá MLS-liðinu Metrostars fyrir 2,5 milljónir punda á sínum tíma en þurfti atvinnuleyfi til að fá að spila í ensku úrvalsdeildinni.

„Lögfræðingar hjá United sögðu mér á þeim tíma að Brad hafi ekki aðeins neitað að skrifa meðmæli fyrir mig heldur hafi hans beinlínis unnið gegn því að félagskiptin myndu ganga í gegn.“

Friedel segir að þegar hann fékk meðmælabréfið í hendurnar hafi hann neitað að skrifa undir það þar sem að hann taldi upplýsingarnar í því rangar. „Þar stóð að ég hafi verið í samkeppni við Tim Howard um byrjunarliðssætið í bandaríska landsliðinu síðustu tvö árin. Allir sem fylgdust með knattspyrnu vissu að sú barátta stóð á milli mín og Kasey Keller.“

„Við gerðum því breytingar á bréfinu og sendum það til baka. Og lengra náði það ekki.“

Friedel hefur farið fram á að Howard biðjist afsökunar á ummælum sínum í bókinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×