Fótbolti

Hlógu á æfingu daginn eftir fall

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Diego Forlán í búningi Osaka.
Diego Forlán í búningi Osaka. vísir/getty
Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Diego Forlán vill komast frá japanska liðinu Cerezo Osaka og það strax, en hann ásakar liðsfélaga sína um að skilja ekki merkingu þess að falla niður um deild og segir Japana vera mjög barnalega þegar kemur að fótbolta.

Forlán gerði 18 mánaða samning við japanska félagið í janúar á þessu ári, en Osaka-liðið féll úr úrvalsdeildinni þar í landi á tímabilinu.

„Japanskir leikmenn skilja ekki alvarleika þess að falla niður um deild því stuðningsmennirnir setja enga pressu á þá. Það er engin pressa hvort sem liðið vinnur eða tapar,“ segir Forlán í viðtali við El Observador TV.

„Það var skrýtið að sjá liðsfélaga mína hlægja á æfingunni daginn eftir að við féllum.“

Forlán gagnrýnir líka þjálfara liðsins fyrir að geyma sig á bekknum stóran hluta tímabilsins, en Úrúgvæinn var t.a.m. kjörinn besti leikmaður HM 2010.

„Ég var pirraður því Okuma þjálfari leyfði mér ekki að hjálpa til síðustu þrjá mánuðina. Hann var alltaf með einhverja afsökun til að koma í veg fyrir að ég spilaði. Augljóslega var hann ekki með mig á bekknum því ég spilaði svo illa því þá hefði allt liðið þurft að vera á bekknum,“ segir Diego Forlán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×