Fótbolti

„Finnst KR hafa siglt undarlega mikið undir radar í vetur“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Rúnar Kristinsson fagnar síðasta sumar.
Rúnar Kristinsson fagnar síðasta sumar. vísir/getty

Fyrrum Íslandsmeistarinn og markahrókurinn Atli Viðar Björnsson finnst Íslandsmeistarar KR hafa siglt undir radar í vetur er rætt hefur verið um mögulega Íslandsmeistara í Pepsi Max-deild karla.

Atli Viðar var í settinu hjá Rikka G ásamt Mána Péturssyni í vikunni þar sem þeir ræddu mörg lið Pepsi Max-deildarinnar og þetta hafði Atli um KR að segja:

„Ég spái KR titlinum. Mér finnst KR hafa siglt undarlega mikið undir radar í vetur. Umræðan hefur mest verið um Breiðablik og Víking en mér finnst KR-liðið best,“ sagði Atli Viðar.

„Mér finnst þeir eiga Kristján Flóka pínulítið inni. Hann kom um mitt mót í fyrra og var fínn en ég held að hann verði hrikalega góður í sumar, svo ég setji smá pressu á hann. Hann hakar í það sem Máni var að tala um áðan; taka yngri menn og hrista upp í þessu.“

„Það eina sem ég sakna frá KR er að taka einn nýjan gæja inn og hrista í leikmannahópnum.“

Máni Pétursson tók í sama streng og spáði KR titlinum en hluta af umræðunni um KR má sjá hér að neðan.

Klippa: Sportið í kvöld - Umræða um KR

Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×