Fótbolti

Nýjasta plan UEFA er að klára deildirnar í júlí og ágúst

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp getur brosað yfir nýjustu tíðindum UEFA.
Klopp getur brosað yfir nýjustu tíðindum UEFA. vísir/getty

Sports Illustrated greinir frá því á vef sínum í gærkvöldi að nýjasta plan UEFA sé að klára deildirnar í júlí og ágúst. Þetta á að hafa komið fram í bréfi UEFA til félaganna.

The Associated Press komst yfir þetta bréf sem er sent frá höfuðstöðvum UEFA og helstu forsvarsmenn UEFA skrifuðu undir bréfið en frestar deildir í Evrópu eru nú í hléi vegna kórónufaraldursins.

Fyrst um sinn áttu allar þjóðirnar að klára deildirnar í heimalandinu fyrir 30. júní. Nú hefur það breyst og deildirnar fá meiri tíma til þess að klára allar deildir enda myndi það hafa mikil fjárhagsleg áhrif séu deildir blásnar af.

Bréfið kom út einungis klukkustund eftir að Belgar blésu sitt tímabilið af þar sem Club Brugge var kjörinn meistari en UEFA biður deildirnar að róa sig; ekki flauta deildirnar af þar sem júlí og ágúst gætu nýst í að klára deildirnar.

„Við erum vissir um að fótboltinn geti byrjað aftur á næstu mánuðum og það mun ráðast á ákvörðum stjórnvalda. Við trúum því að ákvarðanir um að flauta deildirnar af á þessu stigi sé ótímabært og ekki réttlætanlegt,“ segir í bréfinu.

Meistaradeildin og Evrópudeildin voru sett á ís í síðasta mánuði en í bréfinu segir einnig að Belgar gætu misst sæti sitt í Meistaradeildinni vegna þess að hafa flautað tímabilið af svo snemma. Úrslit og þáttaka í Evrópukeppnum innan UEFA eiga að ráðast á vellinum, segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×