Fótbolti

Fanndís: Ákveðið löngu fyrir mótið að það væri bara Breiðablik og Valur

Anton Ingi Leifsson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir er einn sigursælasti leikmaður íslenska boltans undanfarin ár en hún fór um víðan völl í Sportinu.
Fanndís Friðriksdóttir er einn sigursælasti leikmaður íslenska boltans undanfarin ár en hún fór um víðan völl í Sportinu. vísir/s2s

Landsliðskonan Fanndís Friðriksdóttir og leikmaður Vals segir að það sé skemmtilegra þegar fleiri góð lið bætist í baráttuna í Pepsi Max-deild kvenna.

Fanndís var gestur í Sportinu í dag þar sem hún ræddi meðal annars uppganginn í kvennaboltanum og þá staðreynd að fleiri lið virðast vera að styrkjast fyrir komandi leiktíð.

„Auðvitað er skemmtilegra þegar það eru fleiri jafnir leikir og fleiri lið blanda sér í baráttuna. Það er skemmtilegra fyrir alla,“ sagði Fanndís í Sportinu.

„Það setur pressu á þig og það setur pressu á hina. Maður er fljótur að taka upp símann og kíkja hvernig aðrir leikir fóru ef það var til dæmis Breiðablik og Selfoss.“

„Maður fann umræðuna í fyrra að það væri bara Breiðablik og Valur. Sem það var en það var búið að ákveða það löngu fyrir mótið að það væri bara Breiðablik og Valur. Ég held að það geri gott fyrir alla að það séu fleiri góð lið því þá eru fleiri leikur sem skipta máli.“

EM 2021 hjá stelpunum hefur verið frestað um eitt ár en EM hjá körlunum fer fram næsta sumar. Fanndís er smá svekkt yfir því.

„Það hefði verið svo kjörið tækifæri að ýta kvennaknattspyrnunni aðeins lengra með að markaðssetja mótin saman. Það mætti halda þau á sama ári en bara ekki á sama tíma. Síðan yrði þessu skipt aftur eins og það á að vera en þetta er pínu svekkjandi,“ sagði Fanndís.

Klippa: Sportið í dag - Fanndís um kvennaknattspyrnu og EM kvenna

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×