Forsvarsmenn Nóa-Síríus biðjast afsökunar á vörukynningu á Tópas í kröfugöngu verkalýðsins þann 1. maí. Þar gekk hópur ungmenna með Tópasauglýsingar á mótmælaspjöldum með göngunni og hrópaði slagorð, í óþökk margra sem í göngunni voru.
Í yfirlýsingu, sem Gunnar Sigurgeirsson markaðsstjóri skrifar undir, segir að fyrirtækinu sé nú ljóst að það sem átti að vera vörukynning á léttum nótum virðist hafa farið úr böndunum og greinilega sært einhverja. Aldrei hafi staðið til að valda fólki sárindum og eru allir hlutaðeigandi beðnir afsökunar.