Erlent

Skutu niður þriðju orrustuþotuna yfir Sýrlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
F16 orrustuþotu tyrkneska flughersins flogið yfir Tyrklandi.
F16 orrustuþotu tyrkneska flughersins flogið yfir Tyrklandi. Getty/Anadolu

Tyrkir skutu í morgun niður þriðju orrustuþotu stjórnarhers Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, yfir Idlib-héraði í Sýrlandi. Orrustuþotan var af gerðinni L-39 en undanfarna daga hafa Tyrkir gert fjölmargar árásir í Idlib sem beinst hafa gegn stjórnarhernum og vopnuðum sveitum sem studdar eru af Íran og styðja stjórnarherinn.

Þessar nýjustu aðgerðir Tyrkja hófust eftir að 35 tyrkneskir hermenn voru felldir í loftárásum í héraðinu og hafa þær valdið Assad-liðum gífurlegum skaða.

Á síðasta sólarhring hafa Tyrkir grandað einni orrustuþotu, einum dróna, sex skriðdrekum, fimm fallbyssu, tveimur loftvarnarkerfum, þremur brynvörðum farartækjum, fimm vopnuðum pallbílum, 6 herbílum og einni birgðageymslu þar sem skotfæri voru geymd. Þar að auki hafi 327 hermenn og vígamenn verið felldir, samkvæmt varnarmálaráðuneyti Tyrklands.

Tyrkir kalla hernaðaraðgerðir sínar í Idlib „Vorskjöld“.

Hér má sjá myndefni sem varnarmálaráðuneyti Tyrklands hefur birt og sýnir árásir þeirra í Idlib. Vert er að vara viðkvæma við myndefninu.

Undanfarin ár hafa vígamenn hliðhollir al-Qaeda nýtt sér óreiðuna í Idlib og stjórna þeir nú héraðinu. Að einhverju leyti hafa þeir gert það með stuðningi Tyrkja. Sókn stjórnarhersins, sem hefur notið stuðnings Rússa, hefur verið ætlað að koma þessum hópum frá völdum þarna á svæðinu.

Stjórnarherinn og Rússar hafa þó verið harðlega gagnrýndir fyrir árásir þeirra í héraðinu, eins og annarsstaðar í Sýrlandi í gegnum árin, þar sem þær hafa komið verulega niður á almennum borgurum og jafnvel beinst gegn þeim.

Sameinuðu þjóðirnar sökuðu Rússa til dæmis nýverið um stríðsglæpi í Sýrlandi í fyrra.

Um milljón manna, þar af lang mest konur og börn, hafa flúið heimili sín vegna sóknarinnar og fjöldinn gæti aukist til muna á skömmum tíma. Tyrkir hafa þó lokað landamærum sínum og segjast ekki geta tekið á móti fleiri flóttamönnum. Um 3,7 milljónir sýrlenskra flóttamanna halda til í Tyrklandi.

Yfirvöld Tyrklands hafa nú tekið þá ákvörðun að hætta að stöðva flóttafólk sem vill komast til Evrópu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.