Juventus komst á topp ítölsku úrvalsdeildarinnar með 1-2 sigri á Roma á útivelli í kvöld. Juventus er með tveggja forskot á Inter á toppnum.
Gestirnir byrjuðu leikinn miklu betur og á 3. mínútu kom tyrkneski miðvörðurinn Merih Demiral þeim yfir með skoti af stuttu færi eftir aukaspyrnu Paolos Dybala.
Sjö mínútum síðar kom Cristiano Ronaldo Juventus í 0-2 með marki úr vítaspyrnu. Þetta var fjórtánda mark hans í deildinni á tímabilinu. Aðeins Ciro Immobile, framherji Lazio, hefur skorað fleiri mörk (20).
Roma sótti meira í seinni hálfleik og Edin Dzeko átti skot í stöng á 65. mínútu. Þremur mínútum síðar fengu Rómverjar vítaspyrnu sem Diego Perotti skoraði úr.
Gonzalo Higuaín skoraði á 79. mínútu en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Hann fékk svo dauðafæri undir lokin en Pau López varði frá honum.
Roma, sem hefur tapað tveimur leikjum í röð, er í 5. sæti deildarinnar.
Juventus á toppinn eftir sigur í höfuðborginni
