Innlent

Vilja græða landið með gori og blóði

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá sláturtíð hjá Norðlenska á Húsavík.
Frá sláturtíð hjá Norðlenska á Húsavík. Myndir/Baldur Hrafnkell Jónsson.

Norðlenska hefur óskað eftir samstarfi við sveitarfélagið Norðurþing um að dreifa gori og blóði sem til fellur í sláturtíð til uppgræðslu á gróðurrýru landi í nágrenni Húsavíkur.

Fyrirspurn þess efnis var lögð fyrir skipulags- og framkvæmdaráð Norðurþings í gær. Í fundargerð fundarins segir að á undanförnum árum hafi gori og blóði frá Norðlenska verið dreift á Hólasandi í samstarfi við Landgræðsluna. Nú sér fyrir hins vegar fyrir endann á því verkefni.

Reiknað er með að um 500 tonnum af blóði verði dreift á um 15 hektara af landi. Landið þarf að vera afgirt og beit ekki heimiluð á landinu í 20 ár eftir síðustu dreifingu að því er fram kemur í fundargerð ráðsins þar sem ræddur var möguleikinn á því að dreifa þessum úrgangi innan fyrirhugaðs skógræktarlands á Ærvíkurhöfða.

Skipulags- og byggingarfulltrúi kynnti viðhorf Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra sem leggst ekki gegn hugmyndinni en benti á að Matvælastofnun þurfti að samþykkja förgunina.

Samþykkt var á fundi ráðsins að taka málið til skoðunar og var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að senda MAST erindi þess efnis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×