Spáð er hlýnandi veðri næstu daga þó hlýindin séu ekki mjög mikil. Því er stutt í slyddu og jafnvel snjókomu en talsverð óvissa er í spám og gætu þær breyst töluvert milli keyrslna. Næstu þrír til fjórir dagar eru þó nokkuð ljósir en æskilegt er að fylgjast náið með veðurspám og færð á vegum ef fólk hyggur á ferðalög fyrir áramótin.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Þá er vaxandi austlæg átt á landinu og rigning eða slydda með köflum á sunnanverðu landinu. Þurrt að mestu fyrir norðan fram á kvöld og hlýnandi veður og hiti víða tvö til sex stig. Suðaustlæg átt í nótt og rigning suðaustan til en snýst í suðvestan 15 til 23 m/s á austanverðu landinu síðdegis á morgun en hægara vestantil. Skúrir eða él um mest allt land en dregur úr vindi með kvöldinu.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Suðaustlæg átt, 8-15 m/s og rigning eða slydda með köflum, hvassast syðst og vestast, en þurrt að kalla NA til. Hiti 0 til 7 stig, hlýjast sið S-ströndina.
Á sunnudag:
Suðlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og slydda eða rigning með köflum, en lítils háttar snjókoma um tíma N-lands. Hiti 0 til 5 stig.
Á mánudag:
Vestlæg átt og skúrir eða él, þurrt fyrir austan. Hiti kringum frostmark.
Á þriðjudag (gamlársdagur):
Ákveðin suðlæg átt með rigningu og sums staðar slyddu, en þurrt NA-lands fram á kvöld. Hlýnandi veður í bili.
Á miðvikudag (nýársdagur):
Útlit fyrir breytilegar áttir með snjókomu eða slyddu í flestum landshlutum og kólnandi veður.