Atletico Madrid fer með tveggja marka forystu inn í seinni leikinn við Juventus í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir sigur á heimavelli sínum í kvöld.
Cristiano Ronaldo átti gott færi fyrir gestina frá Ítalíu strax á fyrstu tíu mínútum leiksins en Jan Oblak gerði vel í að slá boltann yfir slána og stuttu seinna átti Giorgio Chiellini gott færi.
Gestirnir áttu hins vegar eftir að naga sig í handarbökin að hafa ekki nýtt færin sín því það voru heimamenn sem skoruðu fyrsta markið. Alvaro Morata skallaði boltann í netið á 70. mínútu.
Myndbandsdómarinn ákvað þó að skoða markið og hann ákvað að dæma það af, dæmdi brot á Morata fyrir að hafa ýtt í bakið á varnarmanninum þegar hann stökk upp í skallann. Staðan því enn markalaus.
Atletico náði þó í markið sitt stuttu seinna. Eftir klafs í teignum upp úr hornspyrnu kom Jose Maria Gimenez boltanum í netið af stuttu færi á 78. mínútu. Á 83. mínútu skoraði Diego Godin annað mark Atletico og tryggði þeim sigurinn.
Ronaldo átti færi til þess að minnka muninn í lok leiks en hann skallaði boltann yfir markið.
Juventus á því stórt verkefni fyrir höndum í seinni leiknum á heimavelli sínum.
Atletico fór langt með að slá út Juventus
