Innlent

Landsréttur staðfesti dóm „útfararstjórans“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Landsréttur staðfesti dóminn sem féll í héraði.
Landsréttur staðfesti dóminn sem féll í héraði. Vísir/Vilhelm
Landsréttur staðfesti í dag dóm héraðsdóms yfir Gunnari Rúnari Gunnarssyni, sem héraðsdómur dæmdi í maí til sex mánaða fangelsisvistar fyrir stórfelld meiriháttar brot gegn skattalögum í rekstri tveggja einkahlutafélaga.

Var hann sakfelldur fyrir að skila af sér efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum félaganna tveggja, sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður annars vegar, og daglegur stjórnandi annars vegar.

Þá kvað dómurinn í héraði á um að Gunnari yrði gert að greiða 13,6 milljóna króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins eða sæta sjö mánaða fangelsisvistar.

Þar að auki var Gunnari gert að greiða allan sakarkostnað og laun verjanda síns, sem samtals nema um 2,2 milljónum króna. Samkvæmt dómi Landsréttar skal Gunnar einnig greiða áfrýjunarkostnað málsins og frekari málsvarnarlaun, sem samsvarar rúmri 1,7 milljónum til viðbótar.

Þekktur „útfararstjóri“

Gunnar er einn tveggja „útfararstjóra“ sem meðal annars var fjallað var um í sjónvarpsþættinum Brestum sem sýndur var á Stöð 2 árið 2015, en það eru menn sem leppa einkahlutafélög sem eru á leið í þrot, til að eigandinn, sá sem kom því á bjargbrúnina, geti haldið óflekkuðu mannorði.

Þá kom fram í dómi héraðsdóms að samkvæmt sakavottorði ákærða hafi hann 14 sinnum áður verið sakfelldur fyrir refsiverðan verknað, þar af þrisvar fyrir kynferðisbrot, og að sakaferill hans teygi sig tæplega tvo og hálfan áratug aftur í tímann, til ársins 1995.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×