Innlent

Hvalvertíðin blásin af, veiðileyfi kom of seint

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ólafur Ólafsson, skipstjóri á Hval 9, í viðtali við Stöð 2 í dag.
Ólafur Ólafsson, skipstjóri á Hval 9, í viðtali við Stöð 2 í dag. Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Engar hvalveiðar verða þetta sumarið hjá Hval hf. Skýringin er sögð sú að veiðileyfi hafi komið of seint til að nægur tími gæfist til að ljúka nauðsynlegu viðhaldi á hvalbátunum. Þeir verða þess í stað bundnir við bryggju í Reykjavík og klassaðir upp fyrir vertíð næsta árs. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Um þetta leyti árs eru hvalbátarnir yfirleitt búnir að fara í slipp, - að verða klárir fyrir vertíðina. Því er ekki að heilsa þetta sumarið. Hvalbátarnir verða bundnir við bryggju í sumar, að sögn Ólafs Ólafssonar, skipstjóra á Hval 9, sem við hittum um borð í dag.

Hvalur 8 og Hvalur 9 í Reykjavíkurhöfn í dag.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
„Það verður engin hvalvertíð hjá okkur. Svoleiðis að þeir fá bara að synda hér í friði í kringum landið. Við slöppum bara af á meðan og verðum í viðhaldinu þetta árið, - koma þeim í gott stand fyrir næsta ár,“ sagði Ólafur. 

Nærvera skips Greenpeace í höfninni í dag kemur málinu þó ekkert við. Ráðamenn Hvals biðu með að hefja umfangsmikið viðhald á bátunum þar til séð yrði hvort hvalveiðar yrðu leyfðar, en ákvörðun sjávarútvegsráðherra var kynnt þann 19. febrúar. 

„Leyfið kemur ekkert fyrr en svo seint. Það kemur ekki fyrr en í lok febrúar. Og þá þarf að panta varahluti. Og það tekur 6-8 vikur, og upp í 10 vikur. Og síðan á eftir að vinna við þetta. Svoleiðis að þá er bara vertíðin búin. Það hefði aldrei verið klárt þá fyrr en í seinnipartinn í ágúst. Og það þýðir ekkert að vera að fara út á svoleiðis. Það gengur ekki upp.“ 

Í vélarrúmi Hvals 9 í dag. Þar var verið að undirbúa viðgerð á gufukötlunum.Stöð 2/Sigurjón Ólason.
Niður í vélarrúmi hvalbátanna, sem báðir eru í kringum sjötugsaldurinn, smíðaðir 1948 og 1952, er byrjað að undirbúa mikla viðgerð á gufukötlunum. 

„Það hefur ekkert verið farið í það nánast frá upphafi. Svoleiðis að þetta er mikil vinna að fara út í þetta. Það þarf að fá sérmenn í þetta sem koma frá Danmörku. Þeir eru sérstaklega í katlaviðgerðum. Það er enginn hér lærður í þetta í dag.“ 

Alls veiddust 146 langreyðar á vertíðinni í fyrrasumar og unnu alls um 150 starfsmenn hjá Hval hf., bæði á bátunum og við verkun í hvalstöðinni í Hvalfirði. 

-Eruð þið ekkert svekktir að komast ekki á hvalvertíð í ár? 

„Jú, að sjálfsögðu, þá erum við það. Það segir sig sjálft. Menn eru búnir að bíða spenntir að komast í þetta. En svona eru bara hlutirnir, því miður,“ svarar Ólafur. 

En það er ekki svo að það verði engar hvalveiðar við Ísland í sumar. Einn bátur er þegar kominn með leyfi til hrefnuveiða, Hrafnreyður, og stefnt að því að hann haldi á miðin síðar í þessum mánuði. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Segir hvalveiðimenn með góða samvisku og sofa vel

Starfsmenn Hvals hf. eru byrjaðir að undirbúa hvalvertíð sumarsins, þá fyrstu eftir nærri þriggja ára hlé, og í dag var annar hvalbátanna dreginn upp í slipp í Reykjavíkurhöfn.

Hvalveiðar draga ekki úr ferðum útlendinga og hafa ekki slæm áhrif á efnahagslífið

Gögn benda ekki til að hvalveiðar hafi slæm áhrif á íslenskt efnahagslíf og ekki er að finna marktækar vísbendingar um að hvalveiðar dragi úr ferðum útlendinga hingað. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða. Lagt er til að sett verði lög eða reglur um hvalaskoðun sem geti haft áhrif á hegðun hvala og truflað þá í fæðuleit.

Segir langreyðarstofninn hafa þrefaldast frá 1987

Íslendingar halda áfram hvalveiðum og verður heimilt að veiða allt að 209 langreyðar og allt að 217 hrefnur á ári næstu fimm ár, samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×