Innlent

Árni Mathiesen segir eðlilegt að leita til FAO með Samherjamálið

Jakob Bjarnar skrifar
Kristján Þór vill að FAO vinni úttekt á viðskiptaháttum íslenskra útgerða og það erindi ratar á borð Árna Mathiesen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.
Kristján Þór vill að FAO vinni úttekt á viðskiptaháttum íslenskra útgerða og það erindi ratar á borð Árna Mathiesen, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra.
„Alltaf gott þegar aðildarþjóðirnar hafa frumkvæði að uppbyggilegum aðgerðum. Spilling er einn helsti þröskuldur þróunar mjög víða í heiminum,“ segir Árni M. Mathiesen aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Alþjóðamatvælastofnuninni (FAO) í samtali við Vísi.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, mun hafa frumkvæði að því að Alþjóðamatvælastofnunun (FAO) vinni úttekt á viðskiptaháttum útgerða sem stunda veiðar og eiga í viðskiptum með aflaheimildir þ. á m. í þróunarlöndum. Um er að ræða eina af sjö aðgerðum ríkisstjórnarinnar í kjölfar Samherjamálsins til að auka traust á íslensku atvinnulífi.

Deild Árna leiðandi í málum varðandi ólöglegar fiskveiðar

Einhver kynni að segja að heimurinn sé lítill sé litið til þess að erindi sem þetta rati á borð Árna sem er einmitt fyrrverandi fjármála- og sjávarútvegsráðherra Íslands. Og flokksbróðir Kristjáns Þórs.

„Deildin sem ég stýri í FAO er leiðandi í málefnum sem varða ólöglegar fiskveiðar og erum við með sérstak einingu sem sinnir svo kölluðum IUU málum og PSMA samningnum. Ísland er í hópi þeirra ríkja sem styðja það verkefni sérstaklega. Deildin er sennilega stærsta alþjóðlega einingin sem sinnir málefnum fiskveiðistjórnunnar í heiminum.“

 

Ísland oft komið við sögu FAO

Árni segir Ísland oft hafa borið upp framfaramál í FAO sem hafa gengið eftir. „Það er því ekki óeðlilegt að íslensk stjórnvöld hafi samband við okkur um svona mál. Þar sem þetta eru mjög flókin mál geri ég ráð fyrir að við leitum samstarfs við aðra alþjóðlega aðila. En þetta er enn þá bara á byrjunarreit.“

Árni segir alveg útilokað að segja til um hvenær einhverrar niðurstöðu sé að vænta í málinu, það þurfi að taka í skrefum. Ár?

„Ég geri ekki ráð fyrir að málinu verði lokið á einu ári en að hvað sé rétt og hægt að gera verði ljóst á þó nokkuð skemmri tíma.“

Þá telur Árni, spurður um hvort það hafi ekki komið sér á óvart að mál sem þetta elti hann til FAO frá Íslandi. „Það er eðlilegt að Íslandi geri eitthvað á framhaldi af uppkomu svona máls og FAO eðlilegur aðili til að leita til.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×