Íslenski boltinn

Sara Björk kom fjórtán ára fótboltastelpu á óvart og gleðitárin runnu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og Eva Stefánsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir og Eva Stefánsdóttir. Skjámynd/Fésbókarsíða Söru

Sara Björk Gunnarsdóttir, Íþróttamaður ársins 2018 og fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, er stödd á landinu og fór í skemmtilega heimsókn í gær. Algjörlega til fyrirmyndar hjá bestu fótboltakonu Íslands.

Sara Björk sýndi frá þessari heimsókn sinni á fésbókarsíðu sinni og það þurfa örugglega margir að berjast við tárin þegar þeir horfa á þetta fallega myndband.

Sara þekkir það sjálf hversu erfitt er að meiðast og hversu mikið verk það er að koma til baka. Þegar hún frétti að fjórtán ára efnilegri Valskonu að taka stórt skref á slíkri vegferð ákvað landsliðsfyrirliðinn að mæta og styðja við bakið á henni.

„Ég ætla að koma einni stelpu á óvart. Hún heitir Eva, er að spila með Val og er bráðefnileg fótboltastelpa. Hún er núna í sjúkraþjálfun og er að koma til baka eftir að hafa slitið krossband. Hún er að fara að hlaupa í fyrsta skiptið eftir krossbandsslitin og ég ætla að koma henni á óvart. Ég ætla að mæta, sýna stuðning og færa henni eintak af bókinni minni,“ sagði Sara.

Eva Stefánsdóttir er bara fjórtán ára gömul og þykir eiga framtíðina fyrir sér í boltanum. Til þess þarf hún að koma til baka úr þessum erfiðum meiðslum og þessi heimsókn Söru færir henni vonandi kraft og orku í þeirri baráttu.

Eva átti erfitt með sig þegar hún sá Söru mæta og það mátti sjá gleðitár hennar.

Sara Björk hefur líka fengið mikið hrós fyrir framtakið enda að sýna það hvernig fyrirmyndir eins og hún geta haft svo góð áhrif á samfélagið. Í athugasemdum við myndbandið er meðal annars talað um að Sara sé með hjarta úr gulli.

Hér fyrir neðan má sjá myndband með heimsókninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×