Innlent

Hætta á frekari rafmagnstruflunum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Frá rafmagnsviðgerðum á Norðurlandi í liðinni viku.
Frá rafmagnsviðgerðum á Norðurlandi í liðinni viku. vísir/egill

Hætta er á frekari rafmagnstruflunum á Norðausturlandi og hluta Austurlands. Hátt þrjú hundruð manns á vegum RARIK hafa nú í tæpan hálfan mánuð unnið dag og nótt við að reyna að halda dreifikerfinu gangandi.

Mikill viðbúnaður hefur verið hjá RARIK um helgina vegna veðursins. „Það urðu engar truflanir hjá okkur í nótt þrátt fyrir nokkuð slæma ísingarveðurspá en þetta er ekki alveg gengið yfir þannig að við vonum auðvitað að við sleppum,“ segir Helga Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri rekstrarsviðs RARIKS.

Helga segir enn mikla hættu á ísingu á Norðausturlandi og á hluta Austurlands. Því sé hætta á rafmagnstruflunum á þessum svæðum á meðan að ástandið vari. „Við erum bara með fólk á vakt auðvitað þangað til þetta klárast og í rauninni erum við alltaf með fólk á vaktinni, allan sólarhringinn, allt árið,“ segir Helga.

Helga segir mikið hafa mætt á starfsfólki undanfarið.

„Þetta er búið að vera gífurlegt álag á RARIK og við erum búin að vera með allt okkar starfsfólk í vinnu síðan veðrið skall á og í rauninni áður þegar við fórum að undirbúa okkur og svo höfum við fengið aðstoð frá fjölda mörgum. Þannig við metum að það sé hátt í þrjú hundruð manns sem hafa komið að þessu á einn eða annan hátt,“ segir Helga

Fólkið hefur unnið dag og nótt síðan óveðrið skall á 10. desember.

„Það hafa allir lagst á eitt og stemmingin hefur verið góð en fólk er auðvitað orðið mjög þreytt,“ segir Helga.

Hún segist loks sjá fyrir endann á ástandinu sem varað hefur verið síðustu tvær vikurnar. „Það virðist vera betri veðurspá núna fram undan og ef við sleppum í dag þá erum við að vonast til að komast inn í jólin bara í friði og ró,“ segir Helga.


Tengdar fréttir

Við­gerðum loks lokið á Dal­víkur­línu

Er nú unnið að því að færa álag frá díselvaravélum um borð í varðskipinu Þór yfir á Dalvíkurlínu. Klukkan níu í kvöld hófst vinna við að taka álag af bænum og má búast við allt að klukkutíma straumleysi og rafmagntruflunum frá þeim tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×