Erlent

Farþegaþota fórst í Kasakstan

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Flugvélin hafnaði á byggingu skömmu eftir flugtak.
Flugvélin hafnaði á byggingu skömmu eftir flugtak. Vísir/AP

Að minnsta kosti fimmtán fórust þegar farþegaþota með 98 innanborðs brotlenti við Almaty-flugvöllinn í suðausturhluta Kasakstan í nótt.

Í frétt BBC af slysinu segir að flugvélin, sem var á vegum kasakstanska flugfélagsins Bek air, hafi misst flugið skömmu eftir flugtak, farið í gegnum steinvegg og hafnað á nærliggjandi byggingu. Að minnsta kosti sextíu voru fluttir slasaðir á sjúkrahús.

Flugvélin var af gerðinni Fokker 100 og var á leið frá Almaty, stærstu borg Kasakstan, til Nur-Sultan, höfuðborgar landsins. Farþegar um borð voru 93, þar af átta börn, og áhöfn taldi fimm manns, samkvæmt upplýsingum frá flugvellinum í Almaty. Sex börn voru á meðal hinna látnu, að því er segir í tilkynningu frá innanríkisráðuneyti Kasakstan.

Frá vettvangi slyssins í morgun.Vísir/AP

Haft er eftir Maral Erman, sem var um borð í flugvélinni þegar hún hrapaði, að vélin hafi titrað við flugtak. Í fyrstu hafi virst sem lendingin hafi heppnast en raunin hafi verið önnur. Þá hafi ekki gripið um sig mikil örvænting meðal farþega um borð. „Það voru engin öskur.“

Komið verður á fót sérstakri nefnd til að rannsaka tildrög slyssins. Þá færði Qasym-Jomart Toqayev, forsætisráðherra Kasakstan, fjölskyldum hinna látnu samúðarkveðjur og hét því að þeir sem ábyrgð bæru á slysinu yrðu sóttir til saka.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×