Innlent

Meðal­vind­hraði 28 metrar á sekúndu á Sel­tjarnar­nesi og Geldinga­nesi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

„Það er orðið mjög slæmt veður á norðvestanverðu landinu. Á Norðurlandi vestra er allvíða 28 til 33 metrar á sekúndu í meðalvindhraða, einnig á Tröllaskaga og í Eyjafirðinum. Síðan er orðið mjög hvasst á Reykjanesi og sums staðar á Vestfjörðum. Það eru 28 metrar í meðalvindhraða úti á Seltjarnarnesi og líka úti á Geldinganesi í Grafarvogi.“

Þetta segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi. Hún segir veðrið vera að ganga eftir eins og spáð var en rauð veðurviðvörun er í gildi fram til klukkan eitt í nótt á Norðurlandi vestra og Ströndum. Á Norðurlandi eystra gildir rauð viðvörun til hádegis á morgun.

Aðspurð hvenær meðalvindhraði mun ná sínum hæsta styrk á því svæði sem rauðar viðvaranir eru í gildi og hve lengi það veður varir segir Elín Björk:

„Það er ekki alveg ljóst að segja en hann er líklega að detta í það núna að hann fari ekki mikið hærra. En við vitum það samt ekki alveg. Það gæti alveg aðeins hækkað á Norðurlandi vestra áður en það lækkar síðan aftur. Á Norðurlandi eystra hefur veðrið líklega náð hámarki á Tröllaskaga þótt það eigi eftir að vera þannig fram yfir miðnætti en austar á því svæði á eftir að hvessa talsvert. Það á líka eftir að hvessa talsvert á miðhálendinu og svo hvessir suðaustan til á landinu í fyrramálið.“

Veðurstofan er að spá mest 33 metrum á sekúndu, fárviðri, á norðvestanverðu landinu. Það er veður sem varir fram yfir miðnætti.

Á höfuðborgarsvæðinu er því spáð að meðalvindhraði nái mest 28 metrum á sekúndu við vesturströndina, líkt og hann hefur nú þegar gert á Seltjarnarnesi og Geldinganesi.

„En það er hægari vindur í efri byggðum sem var alveg vitað í þessari átt. Það er mjög mikill munur á veðri hérna á svæðinu eftir vindáttum.“

Síðdegis í dag var appelsínugulri veðurviðvörun á Norðurlandi eystra breytt í rauða og rauð viðvörun á norðvestanverðu landinu tók gildi klukkutíma fyrr en ráðgert var.

„Okkur fannst vindurinn vera orðinn mjög hvass örlítið fyrr á norðvestanverðu landinu og síðan fór það þannig að það varð bálhvasst austan megin á Tröllaskaganum. Áhrifin af veðrinu voru orðin mjög mikil á norðaustanverðu landinu því það fór svo mikið af rafmagni og þá voru þessi samfélagslegu áhrif sem í raun og veru ráða viðbúnaðarstigi kerfisins orðin mjög mikil. Þess vegna hækkuðum við viðbúnaðarstigið upp í rautt,“ segir Elín Björk.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.