Innlent

Varðskip veitir Dalvíkingum rafmagn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Varðskipið Þór við landfestar í Reykjavíkurhöfn.
Varðskipið Þór við landfestar í Reykjavíkurhöfn. Vísir/vilhelm

Varðskipið Þór er nú á leið frá Siglufirði til Dalvíkur þar sem til stendur að nýta skipið sem rafstöð fyrir bæinn. Þetta verður í fyrsta sinn sem varðskipið Þór er nýtt sem hreyfanleg aflstöð, að því er fram kemur í yfirlýsingu landhelgisgæslunnar. Þór getur flutt 2MW af rafmagni í land en það er sagt nóg til þess að halda meðalstóru sveitarfélagi gangandi í neyðartilvikum.

„Við hönnun skipsins var horft til þess að mögulegt yrði að senda rafmagn í land á afskekktum stöðum vegna rafmagnsleysis. Til þessa hafa rafmagnsdreifingaraðilar og veitufyrirtæki ekki talið unnt að tengjast skipinu fyrr en nú. Sérfræðingur skipatæknisviðs Landhelgisgæslunnar er á leið til Dalvíkur þar sem hann aðstoðar við tenginguna,“ segir í fyrrnefndri yfirlýsingu.

Sjá einnig: Enn raf­magns­truflanir á Norður­landi

Tilkynnt var um rafmagnleysið í Dalvíkurbyggð í gærmorgun, eftir að Dalvíkurlína brotnaði. Ljóst var frá upphafi að bilunin væri alvarleg og að gera mætti ráð fyrir langvarandi rafmagnsleysi. Þá er einnig rafmagnslaust í Svarfaðardal auk þess sem rafmagnsbilun hefur leikið íbúa Fjallabyggðar grátt.

Áhöfnin á Þór hafði einmitt verið að bregðast við útkalli þar, áður en varðskipið var sent til Dalvíkur í morgun. Færanleg aflstöð var flutt frá Ísafirði til Siglufjarðar í nótt og verður einn varðskipsmanna eftir á Siglufirði til að aðstoða við löggæslu. Áætlað er að varðskipið verði komið til rafmagnsveitu á Dalvík upp úr hádegi.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.