Innlent

Varðskip veitir Dalvíkingum rafmagn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Varðskipið Þór við landfestar í Reykjavíkurhöfn.
Varðskipið Þór við landfestar í Reykjavíkurhöfn. Vísir/vilhelm

Varðskipið Þór er nú á leið frá Siglufirði til Dalvíkur þar sem til stendur að nýta skipið sem rafstöð fyrir bæinn. Þetta verður í fyrsta sinn sem varðskipið Þór er nýtt sem hreyfanleg aflstöð, að því er fram kemur í yfirlýsingu landhelgisgæslunnar. Þór getur flutt 2MW af rafmagni í land en það er sagt nóg til þess að halda meðalstóru sveitarfélagi gangandi í neyðartilvikum.

„Við hönnun skipsins var horft til þess að mögulegt yrði að senda rafmagn í land á afskekktum stöðum vegna rafmagnsleysis. Til þessa hafa rafmagnsdreifingaraðilar og veitufyrirtæki ekki talið unnt að tengjast skipinu fyrr en nú. Sérfræðingur skipatæknisviðs Landhelgisgæslunnar er á leið til Dalvíkur þar sem hann aðstoðar við tenginguna,“ segir í fyrrnefndri yfirlýsingu.

Sjá einnig: Enn raf­magns­truflanir á Norður­landi

Tilkynnt var um rafmagnleysið í Dalvíkurbyggð í gærmorgun, eftir að Dalvíkurlína brotnaði. Ljóst var frá upphafi að bilunin væri alvarleg og að gera mætti ráð fyrir langvarandi rafmagnsleysi. Þá er einnig rafmagnslaust í Svarfaðardal auk þess sem rafmagnsbilun hefur leikið íbúa Fjallabyggðar grátt.

Áhöfnin á Þór hafði einmitt verið að bregðast við útkalli þar, áður en varðskipið var sent til Dalvíkur í morgun. Færanleg aflstöð var flutt frá Ísafirði til Siglufjarðar í nótt og verður einn varðskipsmanna eftir á Siglufirði til að aðstoða við löggæslu. Áætlað er að varðskipið verði komið til rafmagnsveitu á Dalvík upp úr hádegi.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×