Innlent

Mælt fyrir fjölmiðlafrumvarpinu fyrir jól

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Gert er ráð fyrir að mælt verði fyrir fjölmiðlafrumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi fyrir jólahlé.
Gert er ráð fyrir að mælt verði fyrir fjölmiðlafrumvarpi mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi fyrir jólahlé. visir/vilhelm

Þingflokkar stjórnar- og stjórnarandstöðu hafa komist að samkomulagi um lok þingfunda fyrir áramót. Karpað hefur verið um dagskrá þingsins fyrir jólahlé undanfarna daga en nú hafa flokkarnir loks komist að samkomulagi. Gert er ráð fyrir að fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur verði tekið á dagskrá og mælt fyrir því fyrir jól samkvæmt samkomulaginu.

Fyrir liggur þó að frumvarpið mun ekki fara í gegnum allar þrjár umræður svo það geti orðið að lögum fyrir áramót. Þá verða þingmannamál frá öllum stjórnarandstöðuflokkum afgreidd fyrir jólafrí samkvæmt samkomulaginu. Samkvæmt starfsáætlun átti síðasti þingfundur fyrir jól að vera í dag en ákveðið hefur verið að funda einnig eitthvað aðeins fram í næstu viku, líklega á mánudag og þriðjudag.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður þá lögð áhersla á að klára að afgreiða þau mál ríkisstjórnarinnar sem mikilvægt er að taki gildi fyrir áramót, þ.e. þar sem dagsetning skiptir máli, og þau mál sem tengjast lífskjarasamningunum svokölluðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×