Innlent

RÚV skylt að birta nöfn um­­­sækj­enda sam­kvæmt per­­sónu­verndar­yfir­­­lýsingu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frestur til að sækja um stöðu útvarpsstjóra rennur út í dag en Magnús Geir Þórðarson, sem var útvarpsstjóri frá 2014, verður Þjóðleikhússtjóri.
Frestur til að sækja um stöðu útvarpsstjóra rennur út í dag en Magnús Geir Þórðarson, sem var útvarpsstjóri frá 2014, verður Þjóðleikhússtjóri. vísir/vilhelm

Frestur til þess að sækja um stöðu útvarpsstjóra rennur út í dag. Athygli hefur vakið að stjórn RÚV ákvað í síðustu viku að birta ekki lista yfir umsækjendur um stöðuna. Áhöld eru um hvort sú ákvörðun standist annars vegar upplýsingalög og hins vegar lög um RÚV.

Þá virðist ákvörðun stjórnar RÚV einnig ganga gegn persónuverndaryfirlýsingu stofnunarinnar sjálfrar þar sem sérstök athygli er vakin á því að stofnuninni sé skylt að birta nöfn, heimilisföng og starfsheiti þeirra umsækjenda sem sækja um auglýst störf. Er það tekið fram að þessi skylda hvíli á RÚV á grundvelli upplýsingalaga, en upplýsingalög hafa gilt um starfsemi RÚV um margra ára skeið.

Skjáskot af texta í persónuverndaryfirlýsingu RÚV.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, benti á það í viðtali við Vísi í síðustu viku að í upplýsingalögum væri skýrt tekið fram að veita skuli upplýsingar um nöfn þeirra sem sækja um störf. Því sæi hún ekki að stjórn Ríkisútvarpsins hefði heimild til að birta ekki nöfn umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra.

Kári Jónasson, formaður stjórnar RÚV, sagði að stofnuninni væri ekki skylt að birta nöfn umsækjenda því RÚV væri opinbert hlutafélag. Þá sagði hann að stjórnin hefði tekið þessa ákvörðun eftir ráðleggingar frá ráðgjafafyrirtækinu Capacent.

Þess má geta að Vísir hefur kært ákvörðun stjórnar RÚV um að birta ekki lista með nöfnum umsækjenda til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Uppfært kl. 12:03:Í fyrri útgáfu þessarar fréttar var ekki farið rétt með það hvenær upplýsingalög tóku að gilda um starfsemi RÚV. Þetta hefur nú verið leiðrétt.


Tengdar fréttir

RÚV auglýsir stöðu útvarpsstjóra

Stjórn RÚV hefur nú formlega auglýst starf útvarpsstjóra laust til umsóknar. Auglýsing þess efnis birtist í helgarblaði Fréttablaðsins í dag. Magnús Geir Þórðarson, fráfarandi útvarpsstjóri, hefur verið skipaður næsti Þjóðleikhússtjóri af Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.