Innlent

RÚV auglýsir stöðu útvarpsstjóra

Eiður Þór Árnason skrifar
Útvarpsstjóri starfar í umboði stjórnar RÚV.
Útvarpsstjóri starfar í umboði stjórnar RÚV. Vísir/vilhelm

Stjórn RÚV hefur nú formlega auglýst starf útvarpsstjóra laust til umsóknar. Auglýsing þess efnis birtist í helgarblaði Fréttablaðsins í dag. Magnús Geir Þórðarson, fráfarandi útvarpsstjóri, hefur verið skipaður næsti Þjóðleikhússtjóri af Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.

Magnús lætur af störfum í janúar næstkomandi og hefur verið tilkynnt að Margrét Magnúsdóttur, skrifstofustjóri Ríkisútvarpsins, taki við sem starfandi útvarpsstjóri fram að því að nýr verði ráðinn í stöðuna.

Sjá einnig: Talið fullvíst að næsti útvarpsstjóri verði kona

Mikið hefur verið rætt um það hver sé líklegur til þess að taka við þessari æðstu stjórnunarstöðu Ríkisútvarpsins og eru háværar raddir um það að næsti útvarpsstjóri verði líklega kona. Ef svo yrði raunin væri það fyrsta konan til að gegna þeirri stöðu.

Þær konur sem hafa helst verið nefndar sem líklegir kandídatar í þessum efnum eru Kristín Þorsteinsdóttir fyrrverandi aðalritstjóri 365, Þóra Arnórsdóttir sjónvarpsmaður, Svanhildur Konráðsdóttir forstjóri Hörpu og síðast en ekki síst Svanhildur Hólm aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Fram kemur í auglýsingunni að stjórn RÚV leiti að „öflugum og reyndum leiðtoga til að stýra RÚV inn í nýja tíma miðlunar.“ Næsti útvarpsstjóri er einnig sagður hafa það hlutverk framfylgja stefnu Ríkisútvarpsins og gæta hagsmuna þess í hvívetna.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.