Innlent

Boða til mót­mæla á Austur­velli vegna Sam­herja­málsins

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Þorsteinn Már Baldvinsson hætti tímabundið sem forstjóri Samherja í liðinni viku í skugga Samherjaskjalanna sem afhjúpuðu starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Nú hefur verið blásið til mótmæla vegna málsins.
Þorsteinn Már Baldvinsson hætti tímabundið sem forstjóri Samherja í liðinni viku í skugga Samherjaskjalanna sem afhjúpuðu starfsemi fyrirtækisins í Namibíu. Nú hefur verið blásið til mótmæla vegna málsins. Vísir/sigurjón
Boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli á laugardaginn klukkan 14:00 undir yfirskriftinni Lýðræði ekki auðræði – Auðlindirnar í okkar hendur!

Á Facebook-síðu viðburðarins er vísað til Samherjamálsins svokallaða og starfsemi fyrirtækisins í Namibíu þar sem talið er að Samherji hafi greitt namibískum embættismönnum mútur gegn því að fá kvóta. Þá leikur grunur á peningaþvætti og skattaundanskotum.

„Almenningur í Namibíu er rændur af íslenskri stórútgerð. Almenningur á Íslandi er rændur af íslenskri stórútgerð sem vílar ekki fyrir sér að beita mútum.

Auðlindaránið er framið í skjóli úreltrar stjórnarskrár, efnahagskerfis sem setur ofurvald í hendur auðstéttar og stjórnmálastéttar sem stendur auðsveip frammi fyrir sérhagsmunum fárra og valdamikilla útgerða - stjórnmálastéttar sem ver ekki hagsmuni almennings,“ segir á Facebook-síðu mótmælanna.

Er þess meðal annars krafist að Ísland fái nýja stjórnarskrá og að Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, segi tafarlaust af sér.

Hann sat í stjórn Samherja fyrir tæpum tveimur áratugum og er góður vinur Þorsteins Más Baldvinssonar, eins stærsta eiganda Samherja, sem steig tímabundið til hliðar sem forstjóri fyrirtækisins eftir að hulunni var svipt af starfseminni í Namibíu.

„Það skal enginn reyna að halda því fram að það sé bara spilling í Namibíu og ekki á Íslandi“

Á meðal þeirra sem standa að mótmælunum er Stjórnarskrárfélagið. Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins, segir þátt Kveiks um Samherjamálið hafa sett allt í samhengi hér Íslandi um það hvernig staðan er.

„Við erum mjög lengi búin að búa við mjög óréttlátt kerfi hvað varðar auðlindanotkun á þessu landi og við erum lengi búin að búa við þá staðreynd að það er hunsuð þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá. Þessi mótmæli eru í raun og veru tilraun til þess að gera eitthvað í þessu stóra máli. Að ná kerfislægum breytingum á Íslandi til þess að geta búið til réttlátara og betra samfélag hér með minni spillingu og minna arðrán,“ segir Katrín.

Aðspurð hvort hún finni fyrir hita í fólki út af Samherjamálinu segir Katrín:

„Já, það er mikill hiti í fólki og það er mjög skiljanlegt. Þetta sýnir okkur innsýn inn í einhverja mynd sem er algjörlega hræðileg og það skal enginn reyna að halda því fram að það sé bara spilling í Namibíu og ekki á Íslandi, það er bara ekki þannig. Við sem samfélag getum alveg tekið á þessu en við verðum þá líka að fá valdhafa sem hlusta á kröfur fólksins.“

En hvernig mun ný stjórnarskrá nýtast í þessari baráttu?

„Hún tryggir að auðlindirnar séu þjóðareign og að þær séu nýttar með sjálfbærum hætti og að þjóðin fái réttlátan hluta af auðlindunum og auðlindanýtingunni. Það er til dæmis sagt í auðlindaákvæðinu í nýju stjórnarskránni að það skuli koma fullt verð fyrir það að hagnýta auðlindirnar, sem þýðir markaðsverð sem þýðir þá að það er ekki hægt að gefa lengur kvótann til að einhverjir örfáir vinir einhverra flokka eða afla hagnist óheyrilega á meðan allt okkar sameiginlega kerfi líður fjárskort,“ segir Katrín.


Tengdar fréttir

Þrjár sárar minningar og ein til­laga

Þegar ég var sumarstarfsmaður hjá Landsbankanum árið 2007 og bankastjóri notaði eitt hádegið til að kynna nýja vöru bankans sem var IceSave innlánsreikningarnir frægu.

Samherjamálið og vantraust hefur áhrif á kjaraviðræður

Brátt hefjast kjaraviðræður á milli Sjómannasambandsins og SFS en núverandi kjarasamningar renna út um næstu mánaðamót. Formaður Sjómannasambandsins segir Samherjamálið og vantraust á milli sjómanna og útgerðar hafi áhrif á viðræðurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×