Í dag klukkan 15 verður haldið málþing um sáttamiðlun í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar þar sem Graham Boyack mun flytja erindi um innleiðingu sáttamiðlunar í Skotlandi. Sátt, félag um sáttamiðlun heldur málþingið og segir Dagný sáttamiðlun vera að ryðja sér til rúms á Íslandi.
„Sáttamiðlun er það kallað þegar hlutlaus þriðji aðili leiðir og stýrir ferli þar sem markmiðið er að hjálpa málsaðilum að ná samkomulagi,“ segir Dagný. „Þetta ferli má nota í hinum ýmsu málum, til dæmis við nágrannaerjur, í viðskiptum og í rauninni á þetta heima alls staðar þar sem fólk á í deilum,“ bætir hún við.
Dagný segir mun ódýrara að útkljá ýmis mál með sáttamiðlun en í dómskerfinu. „Þetta kostar okkur miklu minna ef talið er beint í beinum peningum og líka ef við lítum á tíma,“ segir hún.
„Svona getum við leyst flókin mál með nokkrum fundum sem taka í mesta lagi nokkrar vikur á móti mörgum mánuðum eða jafnvel árum í dómskerfinu,“ segir hún.

„Með því að setja þetta inn í barnalögin hefur þekkingin og reynslan á sáttamiðlun aukist. Við sjáum að miklu færri mál eru að fara fyrir dómara og í úrskurð hjá sýslumanni,“ segir Dagný. Árið 2014 kom 351 slíkt mál á borð Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og þar af fór 261 þeirra í sáttamiðlun.
„Þetta hefur gefið góða raun og í rauninni ætti það að vera þannig að ef upp kemur deila þá sé sáttamiðlun fyrsta skrefið sem er reynt en ekki dómskerfið,“ segir Dagný.
Hún segir sáttamiðlun eiga við í hinum ýmsu málum, bæði einkamálum og sakamálum. „Íslendingar eru bara alltaf svolítið seinir til, og ef við horfum á löndin í kringum okkur þá er þetta úrræði notað mun meira þar en hér. Á málþinginu munum við heyra hvernig þetta gengur til í Skotlandi en ætla má að Skotar séu um tíu árum á undan okkur í þessu,“ segir hún.
Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari tekur undir orð Dagnýjar og segir að hægt væri að notast við sáttamiðlun í mun meiri mæli en gert er. „Þetta er mjög gott úrræði og það er sorglegt hvað það er lítið notað. Ég held að þetta gæti verið stórgott úrræði í ýmsum sakamálum,“ segir Kolbrún.