Bíó og sjónvarp

Apple hætti skyndilega við frumsýningu nýrrar myndar vegna „áhyggja“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Samuel L. Jackson er í aðalhlutverki.
Samuel L. Jackson er í aðalhlutverki. AP/Apple TV+
Bandaríski tæknirisinn Apple tilkynnti skyndilega í gær að fyrsta kvikmyndin sem framleidd var fyrir Apple TV+ streymisveituna yrði ekki frumsýnd í kvöld, líkt og til stóð. Litlar upplýsingar hafa verið gefnar upp af hverju frumsýningunni var frestað.

Myndin nefnist The Banker og skartar Samuel L. Jackson og Anthony Mackie í aðalhlutverkum. Leika þeir tvo þeldökka frumkvöðla sem ná árangri í viðskiptaheiminum með því að láta sem fyrirtæki þeirra sé rekið af hvítum einstaklingi. Myndin er byggð á sönnum atburðum.

Frumsýna átti myndina í kvöld á AFI Fest-kvikmyndahátíðinni sem haldin er í Hollywood. Átti myndin að loka hátíðinni. Þá átti myndin einnig að vera fyrsta myndin sem Apple myndi gefa út á Apple TV+ streymisveitunni sem nýlega var ýtt úr vör.

„Við keyptum The Banker fyrr á þessu ári og vorum snortin af skemmtana- og fræðslugildi myndarinnar um félagslegar breytingar og fjármálalæsi. Í síðustu viku fengum við upplýsingar sem tengjast myndinni sem við höfum áhyggjur af,“ sagði í yfirlýsingu frá Apple vegna málsins.

Ákveðið hafi verið að fresta því að frumsýna myndina á meðan Apple og kvikmyndagerðamennirnir skoði málið betur.

Bandaríski fréttavefurinn Deadline telur sig hafa heimildir fyrir því að frestunin tengist ónefndum ásökunum á hendur Bernard Garrett yngri, son mannsins sem Mackie leikur í myndinni, Bernard Garrett eldri.

Garrett yngri var ráðgjafi við gerð myndarinnar og hefur aðstoðað við að markaðssetja hana. Í frétt Deadline segir að Apple vilji taka sér tíma til að rannsaka ásakanirnar og því hafi verið ákveðið að fresta frumsýningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×