Erlent

Býður ekki fram þar sem Í­halds­menn unnu síðast

Atli Ísleifsson skrifar
Nigel Farage býður sig ekki fram sjálfur í kosningunum.
Nigel Farage býður sig ekki fram sjálfur í kosningunum. Getty

Nigel Farage, formaður Brexit-flokksins, segir að flokkur hans muni ekki bjóða fram í þeim 317 kjördæmum þar sem Íhaldsflokkurinn vann sigur í kosningunum 2017. Þingkosningar fara fram í Bretlandi 12. desember næstkomandi. Farage segir að flokkurinn muni bjóða fram á öllum öðrum kjördæmum.

Farage greindi frá þessu fyrr í dag. Sagðist hann hafa tekið ákvörðunina í nótt, en fyrir viku greindi hann frá því að Brexit-flokkurinn byði fram í öllum kjördæmum.

Farage segist hafa tekið ákvörðunina til að draga úr líkum á nýrri þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit og að enginn flokkur, það er Íhaldsflokkurinn, fengi hreinan meirihluta á þingi.

Hann segir að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hafi lagt til útgöngu úr Evrópusambandinu sem hljómi eins og það sem breska þjóðin hafi ákveðið í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016.

Farage segir að flokksmenn muni leggja alla áherslu á að ná þingsætum í þeim einmenningskjördæmum þar sem Verkamannaflokkurinn vann sigur í síðustu kosningum. Þykir ljóst að Íhaldsflokkurinn muni hagnast mikið á þessari nálgun Brexit-flokksins.


Tengdar fréttir

Farage gerir Johnson tilboð

Brexitflokkurinn býður sig nú í fyrsta skipti fram í þingkosningum og mælist með um ellefu prósenta fylgi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.