Fótbolti

Alfreð: Það er bara okkar hlutverk að þagga niður í þeim

Óskar Ófeigur Jónsson í Antalya skrifar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason. Vísir/Sigurður Már
Alfreð Finnbogason segir stefnuna vera að þagga niður í hávaðasömum stuðningsmönnum Tyrkja á fimmtudagskvöldið og reyna að gera þetta að eftirminnilegu kvöldi fyrir íslensku strákana.

Alfreð Finnbogason hefur þurft á horfa nokkra leiki íslenska landsliðsins í þessari undankeppni þar sem hann var að glíma við meiðsli. Nú er framherjinn aftur á móti kominn aftur á flug og hefur gengið vel með Augsburg að undanförnu.

„Það er mjög skemmtilegt eins og alltaf að vera kominn hérna til Tyrklands að hitta strákanna. Hér eru góðar aðstæður og það koma upp góðar minningar frá því síðast að við vorum hérna. Við æfðum hérna áður en við unnum þá 3-0 á útivelli,“ sagði Alfreð Finnbogason eftir æfingu strákanna í Antalya. Liðið setti upp búðir á sama stað og á sama hóteli og þegar liðið mætti síðast til Tyrklands.

Náum vonandi að búa til sömu tilfinningu

„Við náum vonandi að búa til sömu tilfinningu inn í hópnum og förum með jákvæða strauma inn í þennan leik,“ sagði Alfreð um leikinn á fimmtudagskvöldið.

„Þetta er gjörbreytt lið hjá Tyrkjum síðan þá. Þeir hafa yngt upp í liðinu og það eru að koma inn mjög góðir ungir leimenn sem eru að spila í stóru deildunum í Evrópu. Þeir hafa kannski hent út stærri nöfnunum sem voru ekki að skila því sem óskað var eftir hjá þeim í landsliðinu. Við vitum því að þetta er öðruvísi lið en við höfum mætt síðustu ár og þeirra árangur talar sínu máli. Þetta verður gríðarlega erfitt,“ sagði Alfreð.

Ísland vann fyrri leikinn 2-1 á Laugardalsvellinum en nú er spilað á heimavelli Galatasaray.

„Við vitum að þessar þjóðir eins og Tyrkland eru alltaf töluvert betri á heimavelli en á útivelli. Þeir sýndu það með því að vinna heimsmeistarana á sínum heimavelli. Við þurfum að eiga topp, topp leik ef við ætlum að sækja stig hér í Tyrklandi. Það er ljóst.,“ sagði Alfreð.

Alfreð Finnbogason.Vísir/Sigurður Már
Tyrkir hafa ekki enn fengið á sig mark á heimavelli í þessari undankeppni.

„Við þurfum að breyta því. Við skoruðum þrjú mörk á þá fyrir tveimur árum. Við höfum sannað það að við getum líka skorað í Tyrklandi og unnið þá þar. Við unnum þá síðan á okkar heimavelli og ég er sannfærður um það og það er trú í hópnum að við getum strítt þeim og gert eitthvað sem öðrum liðum hefur ekki tekist í riðlinum,“ sagði Alfreð.

Hávaðinn verður örugglega mjög mikill á Türk Telekom Stadium en Alfreð segir að íslenska liðið renni nú ekki alveg blint út í sjóinn. Liðið hefur spilað tvisvar í Tyrklandi á síðustu fjórum árum og þótt að þeir vellir hafi verið minni var hávaðinn gríðarlegur.

Við vitum nákvæmlega hvað við erum að fara út í

„Við vitum nákvæmlega hvað við erum að fara út í. Við höfum tvisvar spilað á móti þeim undir svipuðum kringumstæðum. Í undankeppni EM 2016 þá tryggðu þeir sér sæti á EM með því að skora á okkur á lokamínútunum. Það var ágætis hávaði á vellinum á þeim tímapunkti. Síðast þegar við unnum þá 3-0 þá fann maður líka fyrir gríðarlegum hávaða í byrjun leiks og í undirbúningi leiksins. Það er bara okkar hlutverk að þagga niður í þeim,“ sagði Alfreð og bætti við:

„Núna verður þetta í Istanbul og á einum af stærstu völlunum þeirra og það verður svolítil upplifun fyrir okkur að taka þátt í þessu. Það er undir okkur komið að gera þetta að eftirminnilegu kvöldi,“ sagði Alfreð.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.