Innlent

Dregur til tíðinda á föstudag eftir rólega daga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skörp skil fara yfir landið úr vestri á föstudag.
Skörp skil fara yfir landið úr vestri á föstudag. Vísir/vilhelm

Rólegra veður er í vændum næstu daga en verið hefur undanfarið, ef marka má hugleiðingar veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands: „Skilin sem hafa strítt okkur með sínum óútreiknanlegu lægðahnútum eru nú að trosna yfir landið.“ Næst dregur til tíðinda í veðrinu á föstudag.

Búast má við suðaustan- og austangolu eða -kalda í dag með skúrakenndri úrkomu, jafnvel slydduéljum, sunnan- og vestanlands. Þurrt að mestu á Norður- og Austurlandi.

Köld norðaustanátt færist svo yfir í nótt og á morgun með éljum norðaustantil en léttir til sunnan- og vestanlands. Fremur rólegur vindur og frystir þá um mestallt land. Svipað veður á fimmtudag en breyting verður á um helgina.

„Það dregur síðan til tíðinda á föstudag þegar næstu skil koma að landi úr vestri en þau virðast ætla að sigla hratt yfir landið og í kjölfar þeirra kólnar aftur í útsynningi með éljum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Norðaustlæg átt 3-10 m/s og dálítil él NA-lands, en léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert. Frost víða 0 til 7 stig og talsvert næturfrost inn til landsins.

Á fimmtudag:
Norðlæg átt, 3-10 m/s og léttskýjað, en lítilsháttar él með NA-ströndinni. Áfram frost um mest allt land, einkum inn til landsins. Vaxandi sunnanátt vestast um kvöldið og þykknar upp.

Á föstudag:
Hvöss sunnanátt með talsverðri rigningu og hlýnar, en slyddu eða snjókomu í fyrstu fyrir norðan. Vestlægari með deginum, fyrst V-til undir hádegi, með skúrum eða éljum og kólnar aftur.

Á laugardag:
Suðvestlæg átt, 5-13 og él, en léttskýjað A-til á landinu. Víða frostlaust við V-ströndina, en annars frost 1 til 7 stig og kaldast í innsveitum NA-lands.

Á sunnudag:
Dregur úr vindi og éljum og áfram bjart A-lands. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:
Útlit fyrir stífa suðaustanátt með rigningu, en þurrt NA-lands. Hlýnandi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.