Innlent

Lognið á undan storminum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Það verður bjart víðast hvar á landinu í dag og hægur vindur.
Það verður bjart víðast hvar á landinu í dag og hægur vindur. Skjáskot/veðurstofa íslands

Það er bjartur og fallegur dagur fram undan víðast hvar á landinu og gera má ráð fyrir svipuðu veðri á morgun. Í hugleiðingum veðurfræðings eru þessir tveir dagar kallaðir „lognið á undan storminum“ því strax á föstudag ganga skil yfir landið með suðaustan hvassviðri og rigningu.

Fremur kalt loft er yfir landinu og víða frost, einkum inn til landsins. Reikna má með að frostið harðni í kvöld og nótt enda víða hægur vindur og léttskýjað og því mikil útgeislun. Þá ganga éljabakkar inn á land norðaustantil og verða jafnvel á stangli við norðvesturströndina einnig.

„Í öðrum landshlutum verður bjartur og fallegur dagur. Svipað veðurútlit er fyrir fimmtudaginn en þó minnkandi éljagangur NA-lands. Segja má að þetta sé lognið á undan storminum því skil munu nálgast landið úr vestri með suðaustan hvassviðri og rigningu, fyrst vestast aðfaranótt föstudags,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Þá kólnar aftur þegar skilin ganga yfir landið og búast má við skárra veðri strax á sunnudag.

„Það hlánar með þessu en það getur tekið tíma fyrir vindinn að koma hreyfingu á kalda loftið og því ekki ólíklegt að úrkoman byrji sums staðar sem snjókoma eða slydda. Þegar skilin ganga yfir landið, fyrst V-til um og upp úr hádegi á föstudag, tekur við hægari suðvestanátt með skúrum og síðar éljum og kólnar aftur í veðri. Það stefnir því í útsynning með éljum á laugardag en útlit fyrir að veður skáni á sunnudag.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag:
Norðlæg átt, 3-10 m/s og léttskýjað, en lítilsháttar él með NA-ströndinni. Frost 0 til 8 stig, kaldast inn til landsins. Vaxandi sunnanátt vestast um kvöldið og þykknar upp.

Á föstudag:
Hvöss sunnanátt með talsverðri rigningu og hlýnar, en slyddu eða snjókomu í fyrstu fyrir norðan. Hægari vestlæg átt með deginum, fyrst vestantil undir hádegi, með skúrum eða éljum og kólnar aftur.

Á laugardag:
Suðvestlæg átt, 5-13 m/s og él, en léttskýjað austantil á landinu. Víða frostlaust við vesturströndina, en annars frost 1 til 7 stig og kaldast í innsveitum norðaustanlands.

Á sunnudag:
Hæg vestlæg átt og víða bjartviðri, en stöku él við norðurströndina. Hiti breytist lítið.

Á mánudag:
Útlit fyrir suðaustlæga átt og hlýnandi veður. Smáskúrir eða él S-lands, en annars þurrt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.