Innlent

Skattrannsóknarstjóri með gögn frá Namibíu til skoðunar

Birgir Olgeirsson skrifar
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri.
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri. fréttablaðið/vilhelm

Embætti héraðssaksóknara hefur tekið skýrslu yfir þeim sem hefur ljóstrað upp um meint brot Samherjamanna í Namibíu. Þá hefur skattarannsóknarstjóra borist gögn frá namibískum yfirvöldum.

Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir embættið hafa tekið mál Samherja til skoðunar í kjölfar umfjöllunar Kveiks þar sem Samherji er sakaður um að hafa mútað namibískum embættismönnum með það að markmiði að komast yfir kvóta þar í landi.

Aðalviðmælandi Kveiks var Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi stjórnandi Samherja í Namibíu, sem hefur fengið stöðu uppljóstrara í Namibíu vegna spillingarannsóknar sem beinist gegn Samherja þar í landi. Hann mætti til skýrslutöku hjá héraðssaksóknara í gærmorgun.

Í samtali við fréttastofu gat hann ekki tjáð sig um það hvort að Jóhannes hefði gefið sig sjálfur fram við embættið eða hvort embættið hefði óskað eftir því að Jóhannes mætti í skýrslutöku.

Ólafur hefur sagt að þungi málsins sé í Namibíu og það sem yrði aðhafðst hér yrði gert í samvinnu við þartilbær yfirvöld. Þá eiga greiðslur frá Samherja að hafa farið í gegnum norskan banka. Ólafur vildi þó ekki tjá sig í hvaða farvegi sá angi væri.

Í almennum hegningarlögum segir að refsa skuli eftir íslenskum hegningarlögum fyrir mútugreiðslur til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Var það leitt inn í hegningarlög árið 1997 en meint brot Samherja eiga að hafa átt sér stað síðastliðin ár.

Kjarninn greindi frá því í morgun að skattrannsóknarstjóra hafi borist ný gögn frá namibískum yfirvöldum. Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri sagði hins vegar í skriflegu svari til miðilsins að ekki væri frekar hægt að upplýsa um það á þessu stigi, þar á meðal að hverjum gögnin beinast.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.