Fótbolti

Markahæsti leikmaður riðilsins missir af leiknum á móti Íslandi í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson í Istanbul skrifar
Cenk Tosun er meiddur og missir af leiknum í kvöld.
Cenk Tosun er meiddur og missir af leiknum í kvöld. Getty/ANP Sport
Liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton er sá markahæsti í riðli Íslands en nú er komið í ljós að hann missir af leiknum í kvöld.

Cenk Tosun hefur skorað fimm mörk í aðeins sex leikjum í undankeppni EM 2020. Hann hefur skorað jafnmörg mörk og Frakkinn Olivier Giroud en sá franski hefur spilað tveimur leikjum meira.

Tyrkneskir fjölmiðlar segja frá því að Cenk Tosun, sem var valinn í hópinn, verði ekki með Tyrkjum í leikjunum á móti Íslandi og Andorra. Hann er meiddur.

Cenk Tosun hefur skorað 5 af 16 mörkum Tyrkja í keppninni en næstum þriðjung marka liðsins.

Cenk Tosun skoraði reyndar fjögur af fimm mörkum sínum á móti Moldóvu en hann var með tvö mörk í báðum leikjum. Fimmta markið hans tryggði Tyrklandi aftur á móti 1-0 sigur á Albaníu á 90. mínútu.

Cenk Tosun hefur spilað lítið með Everton á leiktíðinni en tryggði liðinu 1-1 jafntefli á móti Tottenham á dögunum. Það er eina úrvalsdeildarmark hans á tímabilinu í þremur leikjum.

Markahæstu leikmenn í H-riðlinum:

5 - Cenk Tosun, Tyrklandi (6 leikir)   

5 - Olivier Giroud, Frakklandi (8 leikir, 1 víti)   

4 - Sokol Cikalleshi, Albaníu (6 leikir, 1 víti)   

3 - Kylian Mbappé, Frakklandi (4 leikir)   

3 - Kingsley Coman, Frakklandi    (5 leikir)

3 - Kolbeinn Sigþórsson, Íslandi (6 leikir)   

3 - Kaan Ayhan, Tyrklandi (7 leikir)  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×