Erlent

Andrés Bretaprins hafnar ásökunum um nauðgun

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Andrés prins.
Andrés prins. Vísir/Getty
Andrés Bretaprins, hertoginn af Jórvík og sonur Elísabetar Englandsdrottningar, hafnar alfarið ásökunum bandarískrar konu á hendur honum. Hún segist hafa verið undir lögaldri þegar prinsinn á að hafa neytt hana til þess að stunda með honum kynlíf, og þannig nauðgað henni.Prinsinn var til viðtals hjá breska ríkissjónvarpinu í gær, þar sem hann svaraði meðal annars spurningum um meint tengsl sín við barnaníðinginn og viðskiptajöfurinn Jeffrey Epstein, auk þess sem hann hafnaði ásökunum hinnar bandarísku Virginiu Giuffre.Giuffre, sem gekk undir nafninu Virginia Roberts þegar hin meintu brot prinsins á henni eiga að hafa átt sér stað, segist alls þrisvar hafa verið látin stunda samfarir við Andrés á árunum 2001 og 2002. Segist hún hafa verið 17 ára þegar brotin hófust. Hún segir brot prinsins gegn sér hafa átt sér stað í London, New-York og á einkaeyja Epstein í Bandarísku Jómfrúaeyjum.„Ég man ekki eftir að hafa hitt þessa konu. Bara alls ekki,“ sagði prinsinn í viðtalinu við BBC.Þá sagði Andrés meðal annars að framburður Giuffre um að prinsinn hefði „svitnað ákaflega mikið“ þegar þau dönsuðu á skemmtistað geti ekki staðist, hann sé nefnilega haldinn kvilla sem veldur því að hann geti einfaldlega ekki svitnað.Mikið hefur verið rætt og ritað um viðtalið í Bretlandi en fjölmiðlar þar í landi telja viðtalið hafa verið misheppnað og illa úthugsað skref hjá prinsinum.Viðtalið í heild má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.