Innlent

Stormur syðst á landinu en lægir seinni partinn

Atli Ísleifsson skrifar
Gul viðvörun er enn í gildi á Suðurlandi fram til klukkan 19.
Gul viðvörun er enn í gildi á Suðurlandi fram til klukkan 19. vísir/vilhelm
Veðurstofan spáin austanátt í dag, allhvassri eða hvassri sunnan og suðvestanlands þar sem búast má við stormi syðst á landinu. Þó mun lægja seinni partinn.

Gul viðvörun er enn í gildi á Suðurlandi fram til klukkan 19. Má þar búast við mjög snörpum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 30 metrum á sekúndu, einkum undir Eyjafjöllum. Verður varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Annars má búst við skýjuðu veðri og dálítilli rigningu sunnan heiða. Hitinn verður á bilinu tvö til sjö stig, en nálægt frostmarki á Norðausturlandi.

„Austan 10-18 sunnanlands á morgun, hvassast við ströndina, annars mun hægari vindur. Lítilsháttar rigning áfram á sunnanverðu landinu, en bjart veður norðantil og þar kólnar heldur. Á fimmtudag er útlit fyrir ákveðna austanátt, með rigningu sunnan- og vestanlands og mildu veðri,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Allhvöss austanátt syðst á landinu, annars mun hægari vindur. Skýjað veður og rigning með köflum S-lands. Hiti 0 til 5 stig, en frost 0 til 5 stig í innsveitum á N-landi. 

Á fimmtudag: Austan 5-13, en hvassara með suðurströndinni. Rigning á S-verðu landinu, annars þurrt. Hiti 0 til 7 stig. 

Á föstudag og laugardag: Austlæg átt og úrkomulítið, en rigning með köflum SA- og A-lands. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig. 

Á sunnudag og mánudag: Norðaustlæg átt og rigning eða slydda með köflum, en þurrt V-lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×