Innlent

Þó nokkrar til­kynningar um ó­sjálf­bjarga fólk í annar­legu á­standi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Alls komu 50 mál inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá því klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Alls komu 50 mál inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá því klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. Vísir/vilhelm
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust í gærkvöldi og nótt þó nokkrar tilkynningar um ósjálfbjarga fólk í annarlegu ástandi. Að því er fram kemur í dagbók lögreglu aðstoðaði lögregla fólkið, ýmist með því að aka því heim til sín, á slysadeild eða í gistiskýli.

Þá óskaði starfsfólk verslunar í Hlíðunum eftir aðstoð lögreglu um áttaleytið í gærkvöldi vegna þjófnaðar á matvörum. Var sakborningur látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Skömmu fyrir klukkan hálfeitt í nótt kom síðan öryggisvörður að manni sem hafði klifrað yfir girðinguna í Suðurbæjarlaug í Hafnarfirði og var þar í setlauginni. Var maðurinn rekinn upp úr lauginni og látinn laus eftir að lögregla ræddi við hann.

Fimmtán ára ökumaður var síðan stöðvaður í Kópavogi klukkan 00:15 í nótt. Var hann kærður fyrir akstur án ökuréttinda og var eldri farþegi í bílnum kærður fyrir að fela ökumanni stjórn ökutækis. Haft var samband við forráðamenn og málið tilkynnt til barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×