Innlent

Réttur til á­fram­haldandi bú­setu tryggður sama hvernig fer

Eiður Þór Árnason skrifar
Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samninginn í dag
Sturla Sigurjónsson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins og Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi, undirrituðu samninginn í dag Utanríkisráðuneytið
Nýtt samkomulag íslenskra og breskra stjórnvalda tryggir rétt fólks til að áframhaldandi búsetu í ríkjunum tveimur fari svo að Bretar yfirgefi Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið án útgöngusamnings.

Nýja samkomulagið gerir Íslendingum og Bretum áfram kleift að flytjast milli ríkjanna til að stunda atvinnu eða nám og fá dvalarleyfi sem gilda í að minnsta kosti 36 mánuði.

Samkomulagið er sagt gilda um þá sem flytja milli ríkjanna frá útgöngudegi Breta úr Evrópusambandinu til lok ársins 2020. Fram kemur í frétt ráðuneytisins að ekki sé hægt að semja lengra fram í tímann að svo stöddu í ljósi þeirrar óvissu sem sé um framtíðarstefnu Bretlands.

Þar kemur jafnframt fram að ef núverandi útgöngusamningur Bretlands og ESB nái fram að ganga muni aðlögunartímabil taka gildi eftir útgöngu þar sem EES-samningurinn og reglur um frjálsa för fólks gildi áfram til loka árs 2020 hið minnsta.

Fari hins vegar svo að Bretland gangi úr sambandinu án samnings hættir EES-samningurinn að gilda um Bretland strax við útgöngu og þar með reglur um frjálsa för fólks milli ríkjanna. Markmiðið með samkomulaginu er sagt vera að tryggja réttindi fólks sama hvernig fer.


Tengdar fréttir

Boris biðst afsökunar á Brexit frestun

Boris Johnsson, forsætisráðherra Bretlands og formaður Íhaldsflokksins hefur beðist afsökunar á því að Bretum hafi ekki tekist að ganga úr Evrópusambandinu fyrir síðustu mánaðamót eins og stefnt hafði verið að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×