Erlent

Fundu lík bresku konunnar við strendur Kambódíu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Amelia Bambridge var 21 árs.
Amelia Bambridge var 21 árs. Vísir/AP
Lík breskrar konu, sem hvarf á bakpokaferðalagi um Kambódíu, fannst í sjó úti fyrir ströndum eyjunnar Koh Rong. Lögregla greindi frá þessu í dag.

Ekkert hafði spurst til konunnar, hinnar 21 árs Ameliu Bambridge, síðan í síðustu viku þegar hún mætti í samkvæmi á strönd áðurnefndrar eyju. Lík hennar fannst um fimmtíu kílómetra úti fyrir ströndinni og verður flutt til borgarinnar Sihanoukville á meginlandi Kambódíu í dag. Fjölskylda Bambridge, sem dvalið hefur á Koh Rong síðustu daga til að aðstoða við leitina, er lögð af stað til borgarinnar.

Tilkynnt var um hvarf Bambridge þann 23. október, morguninn eftir samkvæmið, þegar hún sneri ekki aftur á gistiheimilið þar sem hún dvaldi. Bakpoki hennar, veski sími og greiðslukort fundust á strönd eyjunnar sama morgun. Ekkert hefur verið gefið upp um dánarorsök hennar.

Sex menn, sem allir starfa í ferðaþjónustuiðnaði á ströndinni, voru handteknir og yfirheyrðir í tengslum við málið í vikunni. Mennirnir voru tilkynntir til lögreglu vegna óviðeigandi hegðunar í garð útlendra kvenna á eyjunni en var öllum sleppt úr haldi á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×