Innlent

Mega búast við „gráum dögum“ í vikunni

Atli Ísleifsson skrifar
Mælst er til þess að fólk hvíli bílinn.
Mælst er til þess að fólk hvíli bílinn. vísir/vilhelm
Auknar líkur eru á svokölluðum „gráum dögum“ í vikunni þar sem loftmengun á höfuðborgarsvæðinu gæti farið yfir heilsuverndarmörk.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó og Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur. Veðurspár gera ráð fyrir þurru og hæglátu veðri á höfuðborgarsvæðinu næstu daga, en í slíkum aðstæðum geta aukist líkur á loftmengun vegna köfnunarefnisdíoxíðs (NO2).

Sú mengun kemur frá útblæstri bíla og er mest á morgnana og í eftirmiðdaginn þegar umferð er mest. Síðastliðinn sunnudag og mánudag mældist styrkur köfnunarefnisdíoxíðs hár við stórar umferðaræðar.

Haft er eftir Svövu S. Steinarsdóttur, heilbrigðisfulltrúa hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, að verið séum að renna inn í tímabil þar sem loftmengun vegna bílaumferðar kunni að fara yfir heilsuverndarmörk.

„Það er er erfitt að spá nákvæmlega hvernig köfnunarefnisdíoxíið muni safnast fyrir á höfuðborgarsvæðinu og því hvetjum við fólk til að vera meðvitað um loftgæði og fylgjast með viðvörunum,“ segir Svava.

Köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi og eru þeir sem viðkvæmir eru fyrir í öndunarfærum, að takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna. Þá er bent á að börn ættu að forðast útivist í lengri tíma. Besta leiðin til þess að reyna að bregðast við loftmengun sé að fólk nýti sér vistvæna samgöngumáta, eins og að hjóla, ganga eða taka Strætó á milli staða.

Hægt er að fylgjast með loftmengun á síðunni loftgaedi.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×